Markmið Landsvirkjunar er að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki. Landsvirkjun vinnur markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins.
Notkun í starfsemi Landsvirkjunar
Jarðefnaeldsneyti er óendurnýjanleg auðlind og við brennslu þess losna ýmsar gróðurhúsalofttegundir. Má þar nefna koltvísýring (CO2), metan (CH4) og glaðloft (N2O). Auk þess losna kolmónoxíð (CO) og svifryk sem valda neikvæðum áhrifum á fólk og umhverfi.
Í starfsemi Landsvirkjunar er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, vélar og ýmis tæki. Magn eldsneytis sem er notað vegna starfseminnar er skráð. Þess ber að geta að dísilolíunotkun verktaka vegna framkvæmda á vegum fyrirtækisins er ekki hluti kolefnisspors Landsvirkjunar. Upplýsingum um eldsneytisnotkun verktaka við stærri framkvæmdir Landsvirkjunar er þó safnað saman. Magntölur fyrir framkvæmdir við Búðarháls og Þeistareyki má sjá í tölulegu bókhaldi.
Samdráttur í heildarnotkun eldsneytis
Árið 2014 var heildarnotkun Landsvirkjunar á jarðefnaeldsneyti um 256 þúsund lítrar.
Meirihluti þess jarðefnaeldsneytis sem notað er hjá Landsvirkjun er dísilolía. Árið 2014 var hlutur dísilolíu í heildarnotkun jarðefnaeldsneytis 96%, en hlutur bensíns 4%. Að auki voru 251 kg af metani notuð til að knýja bifreiðar á starfsstöð Landsvirkjunar í Reykjavík.
Heildarnotkun Landsvirkjunar á jarðefnaeldsneyti (dísilolíu og bensíni) á árinu 2014 var 256 þúsund lítrar. Magn dísilolíu vegna starfsemi Landsvirkjunar á árinu var 244 þúsund lítrar. Notkun dísilolíu dróst saman um 10% samanborið við árið 2013. Ástæðu þess má rekja til minni umsvifa í starfsemi framkvæmdasviðs og þróunarsviðs sem getur verið nokkuð breytileg milli ára, allt eftir umfangi verkefna. Umfangsmesta verkefni þessara sviða á árinu var undirbúningsvinna við Þeistareykjavirkjun.
Á árinu voru keyptir rúmlega 11 þúsund lítrar af bensíni, sem er 9% minna magn en árið áður. Magn bensíns í rekstri Landsvirkjunar hefur dregist saman um 41% þegar borið er saman við starfsárið 2010. Ástæða minnkandi bensínnotkunur á undanförnum árum er sú að bifreiðum í eigu Landsvirkjunar sem knúnar eru bensíni hefur fækkað verulega.
Magn dísilolíu vegna starfsemi Landsvirkjunar á árinu var 244 þúsund lítrar og dróst saman um 10% samanborið við árið 2013.
Breytingar milli ára í notkun eldsneytis á aflstöðvum eru ekki miklar, enda er rekstur stöðvanna í nokkuð föstum skorðum. Þó jókst notkun dísilolíu á Þjórsársvæðinu á árinu. Ástæður þess eru m.a. innkaup á eldsneyti á varaafl samhliða spennaskiptum í Búrfellsstöð og á ýmsan búnað inni á hálendinu sem og aukning í eldsneytisnotkun á bílaflota aflstöðva á svæðinu. Nánari upplýsingar um eldsneytisnotkun Landsvirkjunar á árunum 2010 til 2014 má sjá í tölulegu bókhaldi.
Samgöngustefna Landsvirkjunar
Á árinu 2014 var sérstök áhersla lögð á orkuskipti í samgöngum og markaði fyrirtækið sér samgöngustefnu.
Markmið samgöngustefnu Landsvirkjunar er að draga úr áhrifum samgangna á umhverfi og andrúmsloft með því að:
-
Draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki í eigu fyrirtækisins.
-
Bæta fyrir óhjákvæmilega losun með kolefnisbindingu í gróðri.
-
Vera virkur þátttakandi í orkuskiptaáætlun fyrir Ísland.
Á árinu 2013 voru teknir í notkun tveir rafmagnsbílar á starfsstöð Landsvirkjunar í Reykjavík. Bílarnir eru ætlaðir fyrir starfsmenn til að nýta í ýmiss konar útréttingar. Snemma árs 2014 var tveimur jarðefnaeldsneytisbílum á aflstöðvum Landsvirkjunar í Fljótsdal og í Soginu skipt út fyrir rafbíla. Í lok árs bættist svo við tvinnbíll í Blöndustöð. Reynsla af notkun bílanna er góð og hefur mælst vel fyrir meðal starfsmanna. Stefna Landsvirkjunar er að skoða rafbíla sem valkost þegar endurnýja þarf bíla í starfsemi fyrirtækisins.
Í september 2014 tók Landsvirkjun, ásamt samstarfsaðilum, þátt í að halda ráðstefnu um orkuskipti í samgöngum sem skipulögð var af Grænu orkunni.