Section
Segment

Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhitaauðlindina á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Fyrirtækið rekur tvær jarðvarmastöðvar á Mývatnssvæðinu, Kröflustöð og Bjarnarflagsstöð. Landsvirkjun stundar umfangsmiklar rannsóknir á nýtingu jarðhita á svæðinu, bæði í tengslum við núverandi rekstur, vegna fyrirhugaðrar virkjunar á Þeistareykjum og mögulegrar framtíðarnýtingar á svæðinu við Hágöngur, í Bjarnarflagi og vegna stækkunar Kröflustöðvar.

Section
Segment

Vinnsla jarðvarma

Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum kemur jarðhitavökvi upp úr borholum. Hann er blanda af vatnsgufu, jarðhitavatni og ýmsum gastegundum sem eru í vatnsgufunni. Eftir að jarðhitavökvi frá vinnsluholum hefur farið í gegnum gufuskiljur er gufan nýtt til raforkuvinnslu en affallsvatnið er ýmist losað á yfirborði eða niður í jarðhitageyminn (djúplosun). Auk raforkuvinnslu á Mývatnssvæðinu leggur Landsvirkjun til heitt skiljuvatn til baðlóns við Jarðbaðshóla, í varmaskiptastöð Hitaveitu Reykjahlíðar og til iðnaðar á svæðinu.

Segment
Segment

Nýting jarðhita til raforkuvinnslu

Yfirlitsmynd

Eftir að jarðhitavökvi frá vinnsluholum hefur farið í gegnum gufuskiljur er gufan nýtt til raforkuvinnslu. Afallsvatn er ýmist losað á yfirborði eða niður í jarðhitageyminn.

Segment

Landsvirkjun fylgist náið með ástandi jarðhitakerfanna á Mývatnssvæðinu. Markmiðið er að tryggja örugga og sjálfbæra vinnslu jarðvarmans og draga úr umhverfisáhrifum. Gerð eru jarðhitalíkön sem lýsa ástandi jarðhitakerfanna en líkönin byggja á umfangsmiklum vöktunarrannsóknum. Þá er fylgst með efnasamsetningu jarðhitavökvans með árlegri sýnatöku og oftar ef ástæða þykir til. Nánari upplýsingar um niðurstöður árlegrar vöktunar á grunnvatni, efnasamsetningu jarðhitavökvans og losun efna í yfirborðsvatn eru í kaflanum vatn og jarðvegur. Nánari upplýsingar um losun gass til andrúmsloftsins má finna í kaflanum andrúmsloftið.

Landsvirkjun leggur til heitt vatn til Hitaveitu Reykjahlíðar og heitt vatn og gufu til baðlóns og iðnaðar á Mývatnssvæðinu sem skref í átt að betri heildarnýtingu auðlindarinnar.

Section
Segment

Raforkuvinnsla jarðvarmavirkjana

Árið 2014 nýtti Landsvirkjun 5.498 þús. tonn af gufu til að vinna 484 GWst af rafmagni.

Á árinu 2014 voru 5.498 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 484 GWst af rafmagni. Við vinnsluna féllu til 5.667 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni. Þá var 4.296 þúsund tonnum af skiljuvatni veitt aftur niður í jarðhitageyminn. Magn vatns í jarðhitavökvanum hefur verið nokkuð stöðugt undanfarin ár. Árið 2014 var hins vegar nokkur aukning í magni vatnsins (9%) meðan magn gufu dróst lítillega saman (3%) líkt og undanfarin ár.

Afkastarýrnun í holunum er almennt helsta ástæða samdráttarins en vermi borhola hefur áhrif á hlutfall vatns og gufu í jarðhitavökvanum. Með lækkandi vermi minnkar orkuinnihald vökvans og meira vatn fellur til. Aukið hlutfall vatns í jarðhitavökvanum er einnig til komið vegna nýtingar á tveim vatnsríkum varaholum í Kröflu. Var það gert vegna aukinnar orkuvinnslu í jarðhita í kjölfar lágrar vatnsstöðu í lónum fyrirtækisins árið 2014.

Segment
Section
Segment

Bætt orkuvinnsla og minni umhverfisáhrif

Á árinu 2014 var þeysabúnaður Kröflustöðvar bættur og við það jókst gufunýtnin um 5% eða 1,5 MW. Þeysar er búnaður sem notaður er til að draga út óþéttanlegt gas sem safnast í eimsvala stöðvarinnar. Því meira sem hægt er að draga úr uppsöfnun á óþéttanlegu gasi því meiri gufa nýtist til orkuvinnslunnar. Þá var nýrri holu bætt við orkuvinnsluna.

Með bættum búnaði í Kröflustöð var hægt að auka gufunýtni um 5%, eða 1,5 MW.


Djúplosun á skiljuvatni getur stuðlað að betri nýtingu jarðhitakerfisins. Með djúplosun má einnig minnka umhverfisáhrif jarðvarmavinnslu á yfirborði og draga úr magni mengandi efna eins og þungmálma, sem fara út í yfirborðsvatn. Djúplosun skiljuvatns frá Kröflu jókst verulega árið 2014 samanborið við undanfarin ár og er nú yfir 90% þess skiljuvatns sem fellur til við orkuvinnsluna.    

Section
Segment

Rannsóknir vegna fyrirhugaðra framkvæmda

Á undanförnum árum hefur verið talsvert um rannsóknarboranir á Norðausturlandi vegna fyrirhugaðrar virkjunar jarðvarma á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi og vegna fyrirhugaðrar stækkunar Kröflustöðvar (Krafla II).

Engar rannsóknarboranir voru á árinu 2014 en hins vegar voru gerðar rannsóknir á afkastagetu jarðhitakerfanna á Þeistareykjum og Kröflu II. Afkastamælingar eru gerðar með því að láta eina eða fleiri borholur blása. Í blæstri streymir jarðhitavökvinn óhindraður upp úr borholunni og á meðan eru gerðar ýmsar mælingar sem sýna viðbragð jarðhitageymisins við vinnslu. Ekki er um neina djúplosun á vatnsfasa jarðhitavökvans að ræða vegna rannsóknanna. Vatninu  á Þeistareykjum er veitt niður í hraunið vestan við borsvæðið þar sem grunnvatsborðið er á um 100 metra dýpi. Á Kröflusvæðinu er vatninu veitt í yfirborðsfarvegi sem renna til Dallækjar.

Segment
Section
Segment

Betri nýting auðlindanna

Djúpborunarholan í Kröflu var boruð á árunum 2008 til 2009 af Íslenska Djúpborunarverkefninu (Icelandic Deep Drilling Project – IDDP). IDDP er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem bæði innlendir og erlendir aðilar koma að. Markmiðið var að bora niður á 4 til 5 km dýpi í vökva í yfirmarksástandi. Snöggur endir varð þó á borverkinu þegar borað var í kviku á um 2.100 metra dýpi.

Íslenska djúpborunarholan er sú heitasta í heimi og getur gefið sexfalt afl miðað við hefðbundnar holur.

Ákveðið var að halda áfram rannsóknum á holunni og hvort mögulegt væri að nýta gufu sem er að finna rétt fyrir ofan kvikuna. Rannsóknir sýndu fram á að holan gat gefið yfir 30 MW, eða á við sexfalt meðalafl hefðbundinna borhola.  Holan er sú heitasta í heimi en gufan í henni náði allt að 450°C. Holunni var lokað 2012 þar sem borholulokar sem notaðir voru stóðust ekki þá áraun sem felst í nýtingu á svo heitri gufu.

Áfram er unnið að rannsóknum og þróun á búnaði fyrir nýtingu bæði mjög djúpra borhola (4–5 km) sem og mjög heitra borhola sem nýta jarðhitaforða rétt ofan við grunnstæða kviku. Fjölmargar áskoranir eru við slíka nýtingu en tækifærin og ávinningurinn er mikill ef vel til tekst.

Segment

Heitasta borhola í heimi

Tilraunir og rannsóknir á djúpborunarholunni í Kröflu hafa gefið mönnun nýja sýn á nýtingu jarðhita. Með slíkri holu má nýta jarðhita við hærra hitastig en áður hefur þekkst, með meiri hagkvæmni og minni umhverfisáhrifum.