Landsvirkjun rekur 14 vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið. Raforkuvinnsla í aflstöðvunum felst í því að miðla rennsli úr miðlunarlónum til orkuvinnslu. Við raforkuvinnsluna er leitast við að hámarka nýtingu vatns sem miðlunarlónin geyma.
Rennslisstýring í lokuðu vatnsorkukerfi
Orkuvinnslukerfið á Íslandi er lokað kerfi án tengingar við önnur raforkukerfi. Þess vegna er mikilvægt að nýta með sem bestum hætti vatnsforðann í lónunum svo hægt sé að tryggja öryggi í rekstri. Hringrás vatnsins er eðli málsins samkvæmt háð veðurfari hverju sinni. Á sumrin er snjóleysingu og bráðnun jökla safnað í miðlunarlón og vatnið nýtt yfir vetrartímann. Raforkuvinnsla vatnsaflsvirkjana felst í því að miðla rennsli úr miðlunarlónum til virkjana og hámarka þannig nýtingu vatns. Ítarlegri upplýsingar um raforkuvinnslu í lokuðu vatnsorkukerfi eru í ársskýrslu 2014 í kaflanum vatnsárið.
Miðlanir og veitur draga úr sveiflum í rennsli sem fylgja örum leysingum og flóðum. Miklar sveiflur í rennsli geta haft neikvæð áhrif á lífríki, jarðveg og samfélag.
Í starfsemi sinni leitast Landsvirkjun við að draga úr sveiflum og hröðum vatnshæðarbreytingum neðan virkjana í samvinnu við sérfræðinga og heimamenn á vinnslusvæðum fyrirtækisins. Vatnsstýring allra vatnsaflsvirkjana Landsvirkjunar er skilgreind í verklagsreglum um fastbundnar takmarkanir á rennsli. Einnig eru settar tímabundnar takmarkanir um rennsli, til dæmis vegna laxveiða og rennslis í fossum.
Vatnsárið 2013–2014
Vatnsár Landsvirkjunar er skilgreint frá 1. október ár hvert og lýkur ári síðar 30. september. Vatnsár hefst að hausti þegar miðlanir hafa náð hæstu stöðu, það er þegar lón eru að jafnaði full. Yfir vetrartímann er rennslinu svo miðlað til aflstöðva. Lón ná svo lægstu stöðu að vori til, áður en vorleysingar og jökulbráð fylla aftur miðlanir fyrir komandi vetur.
Á síðasta vatnsári (2013 til 2014) var heildarinnrennsli til vinnslusvæða Landsvirkjunar 7% undir meðaltali síðustu 10 vatnsára. Árið 2014 flokkast því sem ár undir meðallagi án þess þó að það teljist þurrt. Vatnsbúskapur ársins einkenndist af því að saman fór mjög þurrt vatnsár 2012 til 2013 og stöðugt lágrennslistímabil allt frá október 2013 fram til apríl 2014.
Á vestari helmingi landsins, á vatnasviði Þjórsár, Tungnaár og Blöndu, var haustið 2013 fremur þurrt og kalt. Innrennsli til miðlana var minna en á sama tíma árið áður og hélst undir meðaltali fram eftir vetri.
Heildarorkuvinnsla Landsvirkjunar úr vatnsafli árið 2014.
Grunnvatnsstaða á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu var einnig sú lægsta sem mælst hefur í áratug. Þórisvatn náði sinni lægstu stöðu síðan Þórisvatnsmiðlun var byggð, eða 560,3 m y.s. Um vorið fór rennslið að taka hægt við sér og var í meðallagi það sem eftir lifði vatnsársins. Sumarleysing af norðanverðum Hofsjökli var með meira móti og fylltist Blöndulón í byrjun september. Þegar á heildina er litið telst árið 2014 til þurra ára á Þjórsár-, Tungnaár- og Blöndusvæðinu.
Á Austurlandi var snjósöfnun yfir meðaltali og veturinn kaldur. Innrennsli til miðlana var því vel undir meðaltali framan af vetri og engin vetrarflóð komu fram. Í lok maí hlýnaði snögglega og var lofthiti á Brúarjökli yfir frostmarki til loka vatnsárs. Í kjölfarið var innrennsli í Hálslón um vorið og mestan hluta sumars það mesta sem mælst hefur á sama tíma í áratug. Hálslón fylltist í lok ágúst og rann á yfirfalli fram í miðjan október. Þegar á heildina er litið var rennsli til Fljótsdalsstöðvar yfir meðallagi.
Aukin rýmd Hálslóns
Hér má sjá hvar sporður Brúarjökuls var eftir framhlaup 1964 (rauð lína) og hvert sporður hans hefur hopað árið 2010. Gögn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Landsvirkjun vaktar ýmsa þætti sem geta haft áhrif á setmyndun á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að kortleggja breytingar á lónum og á vatnsfarvegum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef þörf krefur.
Hálslón er stærsta manngerða miðlunarlón á Íslandi, um 62 km2 og um 2100 Gl að rúmmáli. Þrjár stíflur mynda Hálslón, Kárahnjúkastífla, Desjárstífla og Sauðárdalsstífla og rennsli til lónsins er að langmestu leyti frá Brúarjökli. Úr Hálslóni er vatnið leitt um 40 kílómetra leið í jarðgöngum að hverflum Fljótsdalsstöðvar.
Með tilkomu Fljótsdalsstöðvar urðu verulegar breytingar á aurburði í vatnsföllum á áhrifasvæði virkjunarinnar. Langmestra áhrifa gætti í Jökulsá á Dal en áin ber með sér mikinn aur. Eftir að Kárahnjúkastífla var reist berst aur úr ánni í Hálslón, sest þar til (setmyndun) og getur þannig minnkað miðlunargetu lónsins.
Setmyndun og skerðing á rýmd Hálslóns getur haft áhrif á líftíma og orkugetu lónsins. Því er nauðsynlegt að þekkja vel og uppfæra reglulega samband lónhæðar og rýmdar ásamt því að fylgjast með hreyfingum Brúarjökuls og áhrifum hans á Hálslón.
Rúmmál Hálslóns hefur aukist um 110 GL síðan árið 2001. Breytinguna má aðallega rekja til þess að Brúarjökull hefur hopað um 4,5 kílómetra á sama tímabili.
Hálslón var sniðmælt sumarið 2013. Mælingar sýna að rúmmál lónsins hefur aukist um 110 Gl frá því fyrra mat var gert árið 2001. Breytinguna má aðallega rekja til þess að Brúarjökull hefur hopað um 4,5 km frá árinu 2000.
Vegna breytinga á sporði Brúarjökuls þarf að gera ráð fyrir að kort af botni lónsins (botnkort) séu ekki fyllilega samanburðarhæf milli mælinga. Þar af leiðandi er erfitt að meta hversu mikill aur hefur sest fyrir í lóninu tímabilið 2008–2013. Þó má áætla að rýmdaraukning lónsins sé jafnvel meiri þar sem aur og botnskrið hefur sest til í lóninu. Samkvæmt mati ætti um 25–35 Gl rýmd í lóninu að hafa horfið vegna aursöfnunar á rekstrartíma lónsins. Því má áætla að aukin rýmd, sem hopun Brúarjökuls hefur í för með sér, sé í raun um 135–145 Gl.
Afkoma jökla
Landsvirkjun stundar umfangsmiklar jöklarannsóknir þar sem meðal annars er fylgst með langtímabreytingum og afrennsli þeirra jökla sem mikilvægir eru fyrir vatnsbúskap fyrirtækisins. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við jöklahóp Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Jöklarannsóknarfélag Íslands og Veðurstofu Íslands
Árlega eru eknir um 300 km á Langjökli og um 1.000 km á Vatnajökli í þeim tilgangi að safna hæðarsniðum með GPS-mælum.
Jökulárið 2013 til 2014 var 20. árið í röð þar sem afkoma Vatnajökuls er neikvæð. Við mat á afkomu er stuðst við vatnsgildi sem er magn vatns sem er bundið í snjó og ís. Meðalvetrarafkoma yfir allan jökulinn var 10% yfir meðaltali (1,7 m vatnsgildis) undangenginna 20 ára en meðalsumarafkoma (leysing) um 20% yfir meðaltali (-2,45 m vatnsgildis).
Það þýðir að ársafkoman var nærri langtímameðaltali eða um -0,75 m vatnsgildis. Langtímameðaltal ársafkomu Vatnajökuls frá jökulárinu 1995 til 1996 til dagsins í dag er um -0,76 m vatnsgildis sem samsvarar um 130 km3 af ís eða um 4% af heildarísmagni jökulsins.
Vetrar- og sumarafkoma er mæld á 23 mælistöðvum á Langjökli og 50 til 60 stöðvum á Vatnajökli. Mælingar á afrennsli frá jöklum ná nú yfir rúmlega tuttugu ár.
Leysing til jökuláa var heilt yfir nokkuð góð. Rennsli til Tungnaár var nærri meðaltali. Rennsli til Hálslóns (Jökulsá á Brú) og til Hágöngulóns (Kaldakvísl) var um 5–6% yfir meðaltali. Rennsli um Jökulsárveitu (Jökulsá í Fljótsdal) var 4% undir meðaltali. Heilt yfir flokkast jökulárið 2013 til 2014 sem meðalár.