Section
Segment

Þó að starfsemi Landsvirkjunar feli í sér nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa er mikilvægt að vinnslan sé stunduð með sjálfbærum hætti. Eitt af því sem huga þarf að við sjálfbæra vinnslu er að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) út í andrúmsloftið. Markmið Landsvirkjunar er að draga úr losun GHL og verða kolefnishlutlaust fyrirtæki.

Section
Segment

Samantekt á losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi Landsvirkjunar

Heildarlosun GHL frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2014 var tæplega 53 þúsund tonn CO2-ígilda.

Stærstu uppsprettur gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfsemi Landsvirkjunar eru útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana. Aðra losun má rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis, flugferða og förgunar úrgangs. Heildarlosun GHL frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2014 var tæplega 53 þúsund tonn CO2-ígilda og jókst losunin um 7% miðað við árið 2013. Losunin var hins vegar 5% lægri en meðaltalsgildi síðustu fimm ára og því er um jákvæða þróun að ræða.

Segment

Losun frá jarðvarmavirkjunum

Losun GHL vegna jarðvarmavirkjana á árinu 2014 var 37 þúsund tonn CO2-ígilda. Útstreymi frá jarðvarmavirkjunum Landsvirkjunar jókst samanborið við árið á undan. Ástæða þess er að á árinu var ný gasrík borhola tengd í vinnslurásina í Kröflu og má rekja aukna losun jarðhitagass milli ára til hennar. Einnig má rekja aukna losun til álagsprófana á Þeistareykjasvæðinu og í Kröflu en við álagsprófanir er jarðgas látið streyma óhindrað frá rannsóknarborholum.

Losun frá uppistöðulónum

Losun GHL frá uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana voru rúmlega 14 þúsund tonn CO2-ígilda árið 2014. Nánast engin losun koltvísýrings á sér stað þegar uppistöðlón eru ísilögð. Fjöldi íslausra daga árið 2014 voru 190 á Blöndulóni og 187 á Gilsárlóni en frá þeim lónum er losun GHL hvað mest.

Losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis

Losun GHL vegna brennslu jarðefnaeldsneytis er reiknuð út frá magni eldsneytis sem notað er í starfsemi Landsvirkjunar og fjölda flugferða starfsmanna. Losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis var 693 tonn CO2-ígilda árið 2014. Þar af voru 665 tonn vegna brennslu dísilolíu og 28 tonn vegna brennslu bensíns. Losun vegna flugferða á árinu var 230 tonn CO2-ígilda, þar af 121 tonn CO2-ígilda vegna millilandaflugs og 109 tonn CO2-ígilda vegna innanlandsflugs.

Segment
Segment

Losun vegna urðunar og gaslosunar

Árið 2014 dró enn úr magni óflokkaðs úrgangs sem fór til urðunar samanborið við fyrri ár. Í samræmi við markmið Landsvirkjunar er því dregið úr losun GHL frá starfseminni. Losun GHL vegna urðunar óflokkaðs úrgangs frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2014 er 22 tonn CO2-ígilda.

SF6-gas er notað sem einangrunarmiðill háspennubúnaðar í Fljótsdalsstöð og á Þjórsársvæðinu en leki eða óhapp getur valdið losun á gasinu. Á árinu 2014 mældist losun GHL frá rafbúnaði í Fljótsdalsstöð samtals 2 kg af SF6-gasi eða tæplega 48 tonn CO2-ígilda. Leki er frá búnaði og nær losunin til tímabilsins 2010–2014. Hafa ber í huga að losunin er öll skráð á árinu 2014 þar sem þá átti sér stað áfyllingin á kerfið. 

Segment
Section
Segment

Kolefnisspor Landsvirkjunar

Kolefnisspor Landsvirkjunar er skilgreint sem árleg losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) vegna starfsemi fyrirtækisins að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun. Landsvirkjun hefur í rúma fjóra áratugi staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna og hefur heildarbinding kolefnis verið metin 22.000 tonn CO2-ígilda á ári. 

Kolefnisbinding vegna starfsemi Landsvirkjunar felur meðal annars í sér að draga úr styrk GHL með bindingu koltvísýrings í aukinni gróðurþekju.

Frá árinu 2013 hefur Landsvirkjun kolefnisjafnað starfsemi sína í samstarfi við Kolvið vegna notkunar fyrirtækisins á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og tæki, vegna flugferða starfsmanna bæði innanlands og milli landa og vegna förgunar úrgangs. Alls nam þessi losun 945 tonnum CO2-ígilda árið 2014. Sú losun hefur verið jöfnuð með bindingu kolefnis í skógarvistkerfum landsins. 

Þegar tekið hefur verið tillit til heildarkolefnisbindingar er kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2014 um 30 þúsund tonn CO2-ígilda. Kolefnissporið jókst því um 14% frá árinu áður en hefur alls lækkað um 19% síðustu fimm ár. Minnkun á kolefnisspori á síðastliðnum árum er að stærstum hluta vegna aukinnar kolefnisbindingar og samdráttar í útstreymi frá jarðvarmavirkjunum sökum breytinga á gasflæði í jarðhitageyminum.

Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til þess sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Mælikvarðinn vísar til þess magns GHL sem við losum beint eða óbeint í okkar daglega lífi. 

Losun GHL borin saman við orkuvinnslu Landsvirkjunar árið 2014 var 3,9 tonn CO2-ígilda/GWst ef ekki er tekið tillit til kolefnisbindingar. Losunin er 2,1 tonn CO2-ígilda/GWst að teknu tilliti til kolefnisbindingar. 

Segment
Segment

Nokkuð mikill munur er á milli jarðvarmavirkjana og vatnsaflsvirkjana með tilliti til gróðurhúsaáhrifa. Losun GHL á hverja unna GWst í jarðvarmavirkjun er 72,5 tonn CO2-ígilda/GWst án kolefnisbindingar og 70,6 tonn CO2-ígilda/GWst þegar tekið er tilliti til kolefnisbindingar.

Landsvirkjun hefur unnið að bindingu kolefnis umfram losun sem jafngildir um 0,54 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja unna GWst af vatnsorku.

Losun GHL á hverja unna GWst í vatnsaflsvirkjun er hins vegar mun lægri, eða 1,25 tonn CO2-ígilda/GWst án kolefnisbindingar en þegar tekið hefur verið tillit til hennar kemur í ljós að kolefnisbindingin er meiri en losunin.

Landsvirkjun hefur með öðrum orðum unnið að bindingu kolefnis umfram losun sem jafngildir um 0,54 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja framleidda GWst af vatnsorku. Nánari upplýsingar um losun GHL í starfsemi Landsvirkjunar má finna í tölulegu bókhaldi.

Segment
Section
Segment

Losun brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum

Brennisteinsvetni (H2S) er ekki gróðurhúsalofttegund en getur haft neikvæð áhrif á bæði fólk og lífríki. Losun brennisteinsvetnis hefur hingað til verið óhjákvæmilegur þáttur í nýtingu jarðhita á Íslandi. Náttúrulegt útstreymi frá jarðhitsvæðum hefur einnig áhrif á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

Segment

Landsvirkjun fylgist með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar á Norðausturlandi. Mælingar hafa verið gerðar í þéttbýliskjarnanum í Reykjahlíð (Helluhraun) og í Kelduhverfi frá því í febrúar 2011. Þá var tveimur viðbótarmælum bætt við í Mývatnssveit árið 2013. Á árinu 2014 var hins vegar hluti mæla lánaður til Umhverfisstofnunar vegna loftgæðamælinga í kjölfar eldgoss í Holuhrauni.

Helstu niðurstöður mælinga fyrir árið 2014:

  • Ársmeðaltal fyrir H2S í Kelduhverfi var 0,84 ± 3 µg/m3 og í Reykjahlíðarskóla var 5,00 ± 3 µg/m3
  • Að teknu tilliti til mælinákvæmni fór styrkur brennisteinsvetnis því ekki yfir heilsuverndarmörk (5±3 μg/m3) árið 2014.
  • Hámark daglegs hlaupandi 24 stunda meðalstyrks fer aldrei upp fyrir 50 µg/m3, hvorki í Reykjahlíð né í Kelduhverfi.

Greinilegt er að eldgosið í Holuhrauni hafði einhver áhrif á mæld H2S-gildi, sérstaklega í Kelduhverfi. Ítarlegri upplýsingar um loftgæðamælingar í kjölfar eldsumbrota er að finna í kaflanum rannsóknir og þróun í Ársskýrslu Landsvirkjunar.

Rauntímamælingar á styrk brennisteinsvetnis við Mývatn eru birtar á vef fyrirtækisins, fyrir mælingar  við Voga og og Grunnskóla Skútustaðahrepps, sem liður í aukinni upplýsingagjöf um starfsemi Landsvirkjunar á svæðinu.

Segment
Section
Segment

Útgefið efni

Hér að neðan er að finna aðgang að skýrslu um losun í andrúmslofið sem gefin var út á árinu.  Þá er greint frá losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisspori Landsvirkjunar í umhverfisskýrslu hvers árs en fyrri umhverfisskýrslur má nálgast undir útgefið efni á vef Landsvirkjunar. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru flestar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.