Við jarðvarmavinnslu er það blástur gufu frá borholum sem helst veldur hávaða í umhverfi sínu, sem og vélar og búnaður aflstöðva. Landsvirkjun fylgist með hljóðstigi jarðvarmavinnslu til að tryggja að kröfur um hávaðamörk séu uppfylltar.
Hljóðstig undir hávaðamörkum
Hávaði er skilgreindur sem óæskileg eða skaðleg hljóð sem stafa meðal annars af athöfnum fólks. Hljóðstyrkur er mældur í desíbelum. Orkuvinnslusvæði Kröflu- og Bjarnarflagsstöðva og virkjunarsvæðið á Þeistareykjum eru skilgreind sem iðnaðarsvæði. Mörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæðum eru 70 dB(A) á mörkum iðnaðarlóðar samkvæmt reglugerð um hávaða.
Hljóðstig í desíbelum (dB) við mismunandi athafnir mannsins
Landsvirkjun leitast við að halda hljóðstigi undir 50 desíbelum á ferðamannastöðum sem liggja innan iðnaðarlóða.
Við jarðvarmavinnslu er það blástur gufu frá borholum út í andrúmsloftið sem veldur mestum hávaða, ásamt hávaða frá vélum og búnaði aflstöðva. Rekstur Kröflustöðvar og Bjarnarflagsstöðvar, og þar með hávaðinn sem frá þeim kemur, er nokkuð stöðugur allt árið. Hávaði frá borholum er hins vegar breytilegur og ræðst af því hvort holur eru í blæstri eða ekki. Hljóðstig á hverjum tíma fer því eftir fjölda hola í blæstri, fjölda véla í vinnslu og veðurfari.
Hljóðstig er vaktað með reglulegum stökum mælingum á völdum stöðum og seint á árinu voru settir upp síritandi hljóðmælar á hverju vinnslusvæði, þ.e. við Kröflu, Bjarnarflag og á Þeistareykjum.
Krafla og Bjarnarflag
Hljóðstigsmælingar
Mælingar á hljóðstigi
Á árinu var fyrirkomulagi hljóðstigsmælinga breytt. Tíðni stakra mælinga var aukin og settir upp síritandi hljóðstigsmælar á öllum þremur vinnslusvæðunum. Skilgreindir voru nýir mælistaðir fyrir stöku mælingarnar og þeim fækkað en áformað er að mæla þar hljóðstig allt að sex sinnum yfir árið.
Kröflustöð og nágrenni
Hljóðstigsmælingar við Kröflustöð fóru fram í maí, júní, ágúst og nóvember og voru holur í blæstri í fyrri tveimur mælingunum. Niðurstöður mælinga sýna að hljóðstig var við öll tilfelli undir viðmiðunarmörkum reglugerðar fyrir iðnaðarsvæði.
Mælingar við Kröflu árið 2014. Öll gildi eru í dB(A) og námunduð að næsta heila tölugildi.
Mælistaður | ||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Dags. |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
28.05 | 35 | 47 | - | 38 | 45 | 61 | 43 | 53 |
25.06 | 48 | 44 | 30 | 41 | 46 | 61 | 43 | 53 |
28.08 | 54* | 43 | 50* | 33 | 48 | 54* | 43 | 56 |
11.11 | 41 | 43 | 35 | 47 | 44 | 45 | 42 | 56 |
*Útsýnisflug hafði áhrif á mælingu
Athyglisvert er að skoða niðurstöður fyrir mælistað 6 sem sýna ágætlega hver áhrif holu í blæstri geta verið á nærumhverfi. Mælistaður 6 er í námunda við holu 35. Sú hola var í aflmælingu í sumar þegar hljóðmælingar fóru fram. Þar mældist hljóðstig 61 dB(A) á meðan hola 35 var í blæstri í maí og júní, en þegar lokað hafði verið fyrir holuna í ágúst mældist hljóðstig 54 dB(A) og 45 dB(A) í nóvember. Þegar hljóðmælingar fóru fram í ágúst var útsýnisflug yfir svæðinu sem hafði áhrif á niðurstöðurnar.
Víti og Leirhnjúkur eru fjölsóttir ferðamannastaðir í mikilli nálægð við iðnaðarsvæði Kröflustöðvar. Mælistaður 7 er við gönguleið upp að Leirhnjúki. Þar mældist hljóðstig um 43 dB(A) í öllum fjórum mælingunum. Erfitt er að segja hve mikil áhrif orkuvinnslan hefur haft þar á en ljóst er að breytingar á hávaða frá holu 35 virðast hafa lítil áhrif.
Við Víti (mælistaður 8) mældist hávaði nokkuð jafn í fjórum mælingum eða í kringum 55 dB(A). Mælt er við sunnanverða gígbrún sem er næst borholunum. Ætla má að hávaði frá orkuvinnslunni sé minni á öðrum stöðum í kringum Víti sem eru fjær holum og í betra skjóli frá starfseminni.
Bjarnarflagsstöð og nágrenni
Hljóðstigsmælingar við Bjarnarflagsstöð fóru fram í júní og nóvember. Niðurstöður mælinga sýna að hljóðstig var í öllum tilfellum 50 dB(A) eða lægra.
Mælingar við Bjarnarflag árið 2014. Öll gildi eru í dB(A) og námunduð að næsta heila tölugildi.
Mælistaður | ||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Dags. |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
6 |
7 |
8 |
9 |
10 |
24.06 | 50 | 44 | 48 | 46 | 50 | 40 | 29 | 40 | 35 | 47 |
11.11 | 42 | 43 | 46 | 40 | 36 | 35 | 25 | 39 | 49 | 49 |
Við Hverarönd á mælistað 1 mældist hljóðstig 50 dB(A) og 42 dB(A). Svæðið er í hvarfi frá bæði Bjarnarflags- og Kröflustöð og stafar hljóðstig þar einkum af hverum á svæðinu, umferð og veðri.
Við Grjótagjá, Hverfjall og grunnskóla Skútustaðahrepps í Reykjahlíð (mælistaðir 6, 7 og 8) mældist hljóðstig í öllum tilvikum um eða undir 40 dB(A). Nær þjóðvegi, virkjanasvæði og áningastöðum ferðamanna mældist hljóðstig hærra. Umferð getur haft töluverð áhrif á mæld gildi, þar sem meðal annars þjóðvegur 1 liggur um svæðið. Þannig getur umtalsverð umferð bíla og rúta á þjóðvegi og við ferðamannastaði haft áhrif á mælingar.
Þeistareykir og nágrenni
Hljóðstigsmælingar við Þeistareyki fóru fram í maí, júní, september og nóvember.
Mælingar við Þeistareyki árið 2014. Öll gildi eru í dB(A) og námunduð að næsta heila tölugildi.
Mælistaður | ||||||
---|---|---|---|---|---|---|
Dags. |
1 |
2 |
3 |
4 |
5 |
6 |
22.05 | 28 | 31 | 30 | 50 | 43 | 42 |
26.06 | 28 | 38 | 29 | 55 | 34 | 29 |
09.09 | 37 | 40 | 38 | 43 | 53 | 57 |
24.11 | 48 | 60 | 34 | 65 | 42** | 51 |
**Mæling of stutt til að vera marktæk.
Þegar mælingar voru framkvæmdar við Þeistareyki í maí voru framkvæmdir sumarsins ekki hafnar. Veður var mjög milt og utanaðkomandi hávaði nær enginn. Því má líta á mæld gildi sem nokkurs konar neðri mörk fyrir hávaða á svæðinu, einkum við mælistaði 1 til 3. Hæsta gildið mældist 50 dB(A) í Bóndhólsskarði en á nálægum borteig voru holur í blæðingu, sem þýðir að örlítið gufustreymi var um holutoppa til að viðhalda hita í holum og búnaði.
Í júní og september voru framkvæmdir í fullum gangi og í nóvember var nokkur umferð verktaka á svæðinu. Á þeim tíma voru álagsprófanir hafnar sem þýðir að allar holur voru í blæstri. Holur í blæstri eru einn mesti hávaðavaldur á orkuvinnslusvæðum jarðvarma og sjást áhrif þessa greinilega á mældum gildum. Mæld gildi eru umtalsvert hærri í nóvember en í fyrri mælingum, sérstaklega á mælistöðum sem liggja að borsvæðum með holum í blæstri (mælistaðir 1, 2 og 4).
Álykta má að hávaði frá starfseminni verði tæpast mikið meiri en þegar álagsprófanir standa yfir. Mæld gildi eru þó öll innan settra marka reglugerðar um hávaða fyrir iðnaðarsvæði, eða 70 dB(A).