Section
Segment

Landsvirkjun leitast við að draga úr magni óflokkaðs úrgangs sem fer til förgunar með því að auka endurvinnslu og endurnýtingu á úrgangi sem fellur til í starfsemi fyrirtækisins.

Section
Segment

Flokkun á öllum starfsstöðvum

Allur úrgangur og spilliefni sem falla til vegna starfsemi Landsvirkjun eru flokkuð og magn skráð. Úrgangur á hverri starfsstöð er flokkaður í samræmi við þá flokkunarmöguleika sem boðið er upp á í viðkomandi landshluta. Þá eru spilliefni meðhöndluð samkvæmt lögum og reglugerðum um meðferð þeirra. Á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar er viðeigandi aðstaða til flokkunar og geymslu á úrgangi og spilliefnum. Öllum úrgangi og spilliefnum er skilað til viðurkennds móttökuaðila.

Úrgangur sem til fellur við stór framkvæmdaverk er ekki hluti af grænu bókhaldi Landsvirkjunar, enda ekki hluti af hefðbundinni starfsemi fyrirtækisins. Upplýsingum um úrgang sem til fellur við starfsemi verktaka við stærri framkvæmdir Landsvirkjunar er þó safnað saman og má sjá magntölur í tölulegu bókhaldi.

Segment
Section
Segment

Magn og tegundir 

Á árinu 2014 fóru 120 tonn af úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar en rúmlega 30 tonn til urðunar.

Úrgangi frá starfsemi Landsvirkjunar má skipta í eftirfarandi þrjá flokka; úrgang sem fer til endurvinnslu eða endurnýtingar, úrgang sem fer til förgunar og óvirkan úrgang, auk þess sem ýmsar tegundir spilliefna falla til.

Heildarmagn úrgangs árið 2014 var rúmlega 183 tonn. Þar af voru 120 tonn sem fór til endurvinnslu eða endurnýtingar, rúmlega 30 tonn af úrgangi til urðunar og 33 tonn var óvirkur úrgangur. Óvirkur úrgangur er úrgangur sem ekki hefur skaðleg áhrif á umhverfið, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur sem er fargað á þar til bærum förgunarstað. Tæp 23 tonn af spillefnum voru send til spilliefnamóttöku.

Segment
Segment

Magn úrgangs í hverjum úrgangsflokki er talsvert breytilegt milli ára sem skýrist að verulegu leyti af umfangi viðhaldsverkefna hvers árs. Magn úrgangs til endurvinnslu eða endurnýtingar hefur sveiflast frá um 80 tonnum til tæplega 500 tonna á síðustu fimm árum. Árið 2014 fóru tæplega 120 tonn af úrgangi til endurvinnslu og endurnýtingar, að stærstum hluta timbur og málmar vegna hreinsunar við Búrfellsstöð, endurnýjunar búnaðar í Blöndustöð og endurnýjunar timburs í kæliturn við Kröflu.

Hjá Landsvirkjun er áhersla lögð á endurvinnslu og endurnýtingu ásamt því að draga úr magni óflokkaðs úrgangs sem fer til urðunar.

Jafnt og þétt hefur dregið úr magni óflokkaðs úrgangs til förgunar í samræmi við markmið fyrirtækisins. Magnið fór úr 70 tonnum árið 2010 niður í rúm 30 tonn árið 2014. Um er að ræða 57% samdrátt í magni óflokkaðs úrgangs á tímabilinu. Milli áranna 2013 og 2014 hefur dregið úr magni úrgangs til förgunar um 14%. Á árinu var aukning í magni óflokkaðs úrgangs í Blöndustöð, Kröflustöð og á Þjórsársvæðinu, en sú aukning skýrist af eðlilegum sveiflum í rekstri. 

Segment
Segment

Frá árinu 2010 til 2014 hefur magn óflokkaðs úrgangs dregist saman úr 70 tonnum í 30 tonn, eða um 57%.

Í flestum tilfellum er heildarmagn óflokkaðs úrgangs frá aflstöðvum árið 2014 lægra eða svipað og meðaltal síðustu fimm ára. Ef horft er sérstaklega til starfsstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut í Reykjavík, þar sem eingöngu er um skrifstofustarfsemi að ræða, sést að góður árangur hefur náðst bæði hvað varðar flokkun á úrgangi til endurvinnslu og í að draga úr heildarmagni úrgangs.

Magn spilliefna sem fellur til í starfsemi Landsvirkjunar ræðst að miklu leyti af umfangi viðhaldsverkefna á ári hverju. Árið 2014 féllu til tæplega 23 tonn af spilliefnum en mest féll til af úrgangsolíu. Öllum spilliefnunum er fargað hjá viðurkenndum förgunaraðila.

Nánari upplýsingar um magn úrgangs frá starfsemi Landsvirkjunar má finna í tölulegu bókhaldi.

Segment