Section
Segment

Í ár eru 50 ár liðin frá stofnun Landsvirkjunar. Allt frá upphafi höfum við haft umhverfismál að leiðarljósi enda snemma ljóst að víðtæk þekking á áhrifum starfseminnar á umhverfið væri nauðsynleg. Kröfur til umhverfismála eru sífellt að aukast og hefur Landsvirkjun markað sér þá stefnu að vera í fararbroddi á því sviði.

Fyrstu skref Landsvirkjunar í umhverfismálum voru tekin með uppgræðslu lands í Þjórsárdal samhliða byggingu Búrfellsstöðvar, fyrstu aflstöðvar fyrirtækisins. Nú 50 árum síðar hefur ötult starf í umhverfismálum skilað okkur mikilvægri þekkingu á auðlindinni, lífríki og náttúrufari. Enda þótt fyrirtækið vinni rafmagn eingöngu úr endurnýjanlegum orkugjöfum veldur starfsemin óhjákvæmilega umhverfisraski og áhrifum á lífríki. Okkur ber því að stíga varlega til jarðar með hagkvæmni, sátt og sjálfbærni að leiðarljósi.

Starfsfólk fyrirtækisins býr að áratugareynslu við að leita lausna til að lágmarka neikvæð áhrif og hámarka jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins. Sú reynsla verður vel ljós í dag þegar Landsvirkjun er með til skoðunar fjölbreytta virkjunarkosti. Þá skipta góðar upplýsingar lykilmáli svo tryggja megi að hönnun virkjunar verði umhverfislega ásættanleg, tæknilega leysanleg og hagkvæm. 

Á árinu hófust undirbúningsframkvæmdir við Þeistareykjavirkjun á Norðausturlandi. Landsvirkjun hefur lengi verið með til skoðunar varfærna uppbyggingu jarðvarma á svæðinu með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Við allan undirbúning Þeistareykjavirkjunar hefur verið lögð sérstök áhersla á umhverfismál og að landmótun og frágangur fari fram samhliða upppbyggingu. 

Landsvirkjun hefur mikilvægu hlutverki að gegna við að stuðla að sjálfbærri orkuvinnslu. Nú þegar loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna vistkerfum heimsins er það okkar ábyrgð að sýna fordæmi – draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda og miðla reynslu okkar og þekkingu af nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Umhverfismál eru þýðingarmikill þáttur í allri okkar starfsemi, allt frá hugmyndastigi virkjana til orkuvinnslu. Við byggjum á traustum grunni og erum stöðugt að þróa færni okkar við sjálfbæra nýtingu í sátt við umhverfi og samfélag.