Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja geta haft áhrif á náttúru og lífríki. Með mati á umhverfisáhrifum eru möguleg áhrif framkvæmda á umhverfi rannsökuð með faglegum hætti og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að kynna sér framkvæmdina og koma á framfæri athugasemdum. Matsferlið er undanfari allra matsskyldra framkvæmda samkvæmt lögum þar um. Á árinu 2014 var unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar og Búrfellslundar. Jafnframt var óskað eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þyrfti matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar.
Virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar
Úr Blöndulóni er vatni veitt um skurði og vötn, samtals um 20 kílómetra leið, að inntakslóni Blönduvirkjunar. Á þeirri veituleið er 69 metra fall sem Landsvirkjun hefur haft til skoðunar að virkja. Sú athugun er í samræmi við markmið fyrirtækisins um að bæta nýtingu auðlindanna. Áætlanir gera ráð fyrir að reisa allt að þrjár smáar virkjanir á veituleiðinni með heildarorkugetu um 194 GW-stundir á ári og allt að 31 MW uppsett afl.

Fyrirhugaðar virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar
Yfirlitsmynd
Fyrirhugaðar virkjanir eru þrjár. Sú efsta, Kolkuvirkjun, virkjar fallið úr Blöndulóni niður í Smalatjörn. Sú næsta, Friðmundarvirkjun, virkjar fallið frá Smalatjörn í Austara Friðmundarvatn og sú þriðja, Þramarvirkjun, virkjar fallið frá Austara Friðmundarvatni niður í Gilsárlón.
Virkjanir á veituleið Blönduvirkjunar voru teknar til mats í 2. áfanga rammaáætlunar. Verkefnisstjórn rammaáætlunar taldi að virkjanirnar hefðu einna minnst áhrif á umhverfi sitt af þeim vatnsaflskostum sem hún tók fyrir. Í áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem samþykkt var á Alþingi í janúar 2013, var virkjunum á veituleið Blönduvirkjunar raðað í orkunýtingarflokk.
Áætluð heildarorkuvinnslugeta nýrra virkjana á veituleið Blönduvirkjunar er um 194 GW-stundir á ári.
Vinna við verkhönnun hófst árið 2011 og vinna við mat á umhverfisáhrifum hófst árið 2012. Báðum þessum verkþáttum lauk árið 2014. Í tengslum við matsvinnuna var á árinu haldinn kynningarfundur fyrir íbúa svæðisins í Húnavallaskóla. Matsskýrslu var skilað inn til Skipulagsstofnunar í september og í október lá álit Skipulagsstofnunar fyrir.
Í mati á umhverfisáhrifum eru metin áhrif af byggingu stöðvarhúsa, gerð veituskurða og stíflu, myndun lóns og gerð aðkomuvega að mannvirkjum. Þeir umhverfisþættir sem teknir voru til skoðunar voru jarðmyndanir, vatnafar, setmyndun og rof, gróður, fugla- og vatnalíf, fornleifar, hljóðvist, ásýnd lands, landslag, samfélag og landnotkun. Áhrif framkvæmda eru að mestu metin óveruleg.
Helstu mótvægisaðgerðir vegna virkjana á veituleið Blönduvirkjunar snúa að því að fella mannvirki að landi og draga úr sýnileika þeirra og áhrifum á landslag.
Skipulagsstofnun setur sem skilyrði fyrir veitingu framkvæmdaleyfis að Landsvirkjun eigi samráð við Umhverfisstofnun um endanlega legu veituskurðar frá stöðvarhúsi Þramarvirkjunar að Gilsárlóni. Markmiðið er að koma í veg fyrir eða draga úr skerðingu votlendis.
Vinna við að breyta aðalskipulagi Húnavatnshrepps og svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands 2015 vegna virkjananna hófst á árinu. Svæðisskipulagsbreytingin bíður staðfestingar umhverfisráðherra. Að fenginni staðfestingu tekur aðalskipulagsbreytingin gildi. Áætlað er að sótt verði um virkjunarleyfi árið 2015.
Búrfellslundur
Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á hraunsléttu sem nefnist Hafið og er á milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar. Niðurstöður rannsókna benda til að aðstæður til virkjunar vinds séu hagstæðar á svæðinu. Landsvirkjun hefur því ákveðið að meta möguleika á að reisa þar fleiri vindmyllur í þyrpingu, svokallaðan vindlund.

Fyrirhugaður vindlundur við Búrfell
TÖLVUTEIKNING
Fyrirhugaður Búrfellslundur nær yfir allt að 40 km2 svæði rétt ofan við Búrfell. Áætlað er að reisa þar allt að 80 vindmyllur með alls um 200 MW afl. Svæðið verður líklega byggt upp í áföngum til að mæta orkuþörf hverju sinni.
Þetta er í fyrsta sinn sem kannað er hvort mögulegt sé að setja upp vindlundi á Íslandi. Það felst því talsverð frumkvöðlavinna í verkefninu. Stór liður í þeirri vinnu er að rýna lagaumgjörð og reglur og vinna að mótun nýrra reglna þar sem þeirra nýtur ekki við. Einnig þarf að rannsaka áhrif vindlunda á lífríki og samfélag en slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar áður á Íslandi.
Undirbúningur fyrir Búrfellslund hófst á árinu. Landsvirkjun vinnur nú að mati á umhverfisáhrifum og liggur tillaga að matsáætlun fyrir. Þeir umhverfisþættir sem eru til skoðunar í matsvinnunni eru landslag, ásýnd, hljóðstig, jarðmyndanir, fuglalíf, ferðaþjónusta og útivist, fornminjar, gróður, landnotkun og landvernd.
Áætlað er að í Búrfellslundi rísi allt að 80 vindmyllur sem hafi heildarorkuvinnslugetu um 705 GWst á ári.
Ásýnd og fuglalíf eru veigamiklir umhverfisþættir vegna byggingu vindmylla sem teknir verða til sérstakrar skoðunar. Rannsóknir á áhrifum vindmylla á fuglalíf eru nýjar hérlendis og eru unnar að erlendri fyrirmynd. Ítarlegri upplýsingar um áhrif vindmylla á fuglalíf er að finna í kaflanum áhrif á lífríki. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í að meta möguleg samfélagsáhrif af framkvæmdinni. Könnuð eru möguleg áhrif á atvinnulíf á svæðinu, ferðaþjónustu og fjárhagsleg áhrif á nærsamfélagið ásamt því að vega og meta ógnanir og tækifæri sem verkefnið kann að skapa.
Stefnt er að því að matsskýrsla liggi fyrir í október 2015.
Bjarnarflagsvirkjun
Núverandi Bjarnarflagsstöð í Mývatnssveit hefur verið í rekstri frá árinu 1969. Í fjölda ára hafa farið fram umfangsmiklar rannsóknir og vöktun á svæðinu sem hafa miðað að aukinni nýtingu jarðvarmans með sjálfbærum hætti. Nú er horft til varfærinnar uppbyggingar í Bjarnarflagi, í tveimur aðskildum 45 MW áföngum. Bjarnarflagsvirkjun er flokkuð í orkunýtingarflokk í áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Bjarnarflagsstöð
Með áfangaskiptri uppbyggingu Bjarnarflagsvirkjunar, þar sem reynsla af áfanga 1 verður rýnd áður en ákvörðun verður tekin um uppbyggingu áfanga 2, er áhætta af framkvæmdinni lágmörkuð.
Endurskoðun umhverfismats
Vinna við undirbúning aukinnar orkuvinnslu í Bjarnarflagi hófst árið 1992. Á árunum 1995–2000 var unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrir 40 MW virkjun. Í framhaldi af því úrskurðaði Skipulagsstofnun að þörf væri á umfangsmeiri upplýsingum. Í kjölfar þess úrskurðar ákvað Landsvirkjun að fara í mat á 90 MW virkjun. Í febrúar árið 2004 skilaði Skipulagsstofnun úrskurði þar sem fallist var á framkvæmdina með skilyrðum um rekstrareftirlit og umhverfisvöktun. Frá þeim tíma hefur verið unnið að undirbúningi virkjunar í samræmi við niðurstöður matsins og úrskurðar Skipulagsstofnunar og er útboðshönnun lokið.
Á árinu 2014 voru liðin 10 ár frá því að úrskurður Skipulagsstofnunar lá fyrir og var því í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum óskað eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Landsvirkjun fékk óháðan aðila til að meta þörf á uppfærslu umhverfismatsins með tilliti til allra þeirra rannsókna sem farið hafa fram frá því að mat var framkvæmt, sem og tækniframfara, og breytinga á lögum og reglum um umhverfismál. Niðurstaða hans var að ekki væri ástæða til að framkvæma heildarendurskoðun á matsskýrslunni en bent var á að einn þáttur, smáskjálftavá, hefði verið vanreifaður.
Landsvirkjun fékk óháðan aðila til að meta þörf á uppfærslu umhverfismatsins. Niðurstaða hans var að ekki væri ástæða til að framkvæma heildarendurskoðun á matsskýrslunni.
Með ákvörðun dagsettri þann 7. nóvember síðastliðinn komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að endurskoða þurfi mat á umhverfisáhrifum 90 MW Bjarnarflagsvirkjunar.
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum getur Skipulagsstofnun ákveðið að endurskoða mat á umhverfisáhrifum ef verulegar breytingar hafa orðið á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, löggjöf um umhverfismál, alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar frá því að úrskurður lá fyrir. Eftir ítarlega skoðun á ákvörðun Skipulagsstofnunar er það mat Landsvirkjunar að ekki hafa orðið verulegar breytingar á forsendum virkjunarinnar og er það mat í samræmi við umsagnir fagstofnana um málið en slíkar forsendubreytingar eru lagaskilyrði fyrir endurskoðun. Að mati Landsvirkjunar tók Skipulagsstofnun hvorki tillit til umsagna Orkustofnunar né Umhverfisstofnunar og fleiri stofnana sem töldu að ekki hefðu orðið verulegar breytingar á framangreindum forsendum. Þá var ekki tekið tillit til breyttra framkvæmdaáforma Landsvirkjunar, um 45 MW virkjun í stað 90 MW, sem hefði átt að hafa umtalsverð áhrif á niðurstöðu ákvörðunar.
Að mati Landsvirkjunar er ákvörðun Skipulagsstofnunar verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Hún felur í sér að Landsvirkjun þarf að fara í kostnaðarsama og umfangsmikla endurskoðun á þáttum matsins, sem fagstofnanir telja að ekki sé þörf á né muni leiða til frekari upplýsinga.
Landsvirkjun hefur því ákveðið að bera ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Nýtingarsaga Bjarnarflagsvirkjunar
1963
Upphaf rannsókna og nýtingar
1963
Léttsteypan
1967–2004
Kísiliðjan
1969
Rafstöð, 3 MW
1971
Hitaveita Reykjahlíðar
1975–1985
Kröflueldar
1984
Varmaskiptastöð
1992
Hugmyndir um frekari uppbyggingu í Bjarnarflagi koma fram
1995
Vinna við mat á umhverfisáhrifum hefst, 40 MW
2000
Matsskýrsla, úrskurðað í frekara mat
2003
Skipulagsstofnun felst á nýja matsáætlun, 90 MW
2004
Úrskurður, fallist á framkvæmd með skilyrðum
2004
Jarðböðin við Mývatn
2013
Landsvirkjun óskar eftir endurskoðun (október)
2014
Skútustaðahreppur óskar eftir endurskoðun (febrúar), ákvörðun liggur fyrir (nóvember), ákvörðun kærð (desember)