Section
Segment

Rammaáætlun er áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Með henni er skorið úr um hvort nýta megi landsvæði til orkuvinnslu eða hvort beri að friðlýsa svæði gagnvart vinnslu. Rammáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi. Rammaáætlun var ýtt úr vör árið 1999. Fyrsta áfanga lauk árið 2003 og öðrum áfanga lauk í janúar 2013. Verkefnisstjórn þriðja áfanga var skipuð í mars 2013 til fjögurra ára.

Segment
Orkustofnun Vinnur úr beiðnum um virkjunarkosti með rökstuddum hætti og leggur fyrir verkefnisstjórn - getur sent inn kosti að eigin frumkvæði Verkefnisstjórn rammaáætlunar Vinnur ráðgefandi tillögu að flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða Ráðherra umhverfis- og auðlindamála Vinnur þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða Alþingi Fjallar um tillögu ráðherra og afgreiðir þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða Beiðnir um nýja, breytta og endurskoðaða orkukosti má senda til Orkustofnunar á fjögurra ára fresti Endurskoðun virkjunar- kosta og þróun nýrra kosta Bið Orkunýting Vernd Mat á umhverfis- áhrifum framkvæmda Friðlýsingarferli Virkjunar- eða nýtingarleyfi ekki veitt Landsvæði ekki friðlýst Landsvæði friðlýst Virkjunar- eða nýtingarleyfi veitt
Section
Segment

Orkustofnun

Orkustofnun fer með stjórnsýslu í orkumálum á Íslandi og þar hefst ferli rammaáætlunar. Beiðni um að verkefnisstjórnin taki fyrir virkjunarkost er send til Orkustofnunar. Með beiðninni skal fylgja lýsing á fyrirhugaðri virkjun, áætluðum virkjunarstað, helstu mannvirkjum og öðrum framkvæmdum sem henni tengjast. Eftir því sem kostur er skal einnig fylgja áætlun um afl og orkugetu ásamt stofn- og rekstrarkostnað virkjunar.

Ef virkjunarkostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn rammaáætlunar fá hann til umfjöllunar. Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti.

Section
Segment

Verkefnisstjórn rammaáætlunar

Ráðherra umhverfis- og auðlindarmála skipar sex manna verkefnisstjórn til fjögurra ára í senn. Verkefnisstjórnin er ráðgefandi fyrir ráðherra og leggur fyrir hann tillögur um flokkun virkjunarkosta í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk ásamt afmörkun landsvæða í samræmi við flokkunina. Flokkunin kallast tillaga um verndar- og orkunýtingaráætlun

Skipun faghópa og öflun gagna

Verkefnisstjórn hefur sér til ráðgjafar faghópa sem skipaðir eru sérfræðingum á viðeigandi sviðum. Faghóparnir fara yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli og leggja fram sitt mat til verkefnisstjórnar. Verkefnisstjórn skal einnig leita umsagnar Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort fyrirliggjandi gögn séu fullnægjandi til að meta tiltekna virkjunarkosti.

Að því loknu vinnur verkefnisstjórn úr niðurstöðum faghópa og undirbýr tillögur að flokkun virkjunarkosta í orkunýtingar-, bið- eða verndarflokk og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. 

Verkefnisstjórn kynnir drög að tillögu að flokkun virkjunarkosta

Þegar drög að tillögu verkefnisstjórnar liggja fyrir er leitað samráðs við almenning, stofnanir og helstu hagsmunaaðila. Verkefnisstjórn vinnur svo úr umsögnum og breytir tillögu sinni ef ástæða þykir til.

Verkefnisstjórn kynnir tillögu að flokkun virkjunarkosta

Tillaga verkefnisstjórnar að flokkun virkjunarkosta og afmörkun landsvæða skal kynnt opinberlega. Öllum er gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum og skal frestur vera að minnsta kosti 12 vikur. Að því ferli loknu vinnur verkefnisstjórn úr umsögnum og breytir tillögu sinni ef ástæða þykir til.

Verkefnisstjórn leggur fram rökstudda tillögu að flokkun virkjunarkosta

Verkefnisstjórn er nú komin með gögn til að leggja fram rökstudda tillögu að flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. Rökstudd tillaga er lögð fyrir ráðherra.

Section
Segment

Ráðherra umhverfis- og auðlindamála

Ráðherra umhverfis- og auðlindarmála tekur tillögur verkefnisstjórnar til skoðunar og vinnur formlega tillögu að verndar- og orkunýtingaráætlun. Tillaga ráðherra er lögð fyrir Alþingi í samráði og samvinnu við iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ef ráðherra umhverfis- og auðlindamála gerir breytingar á tillögum verkefnisstjórnar skal farið með þær í samráðsferli og þær kynntar með opinberum hætti áður en tillaga að verndar- og orkunýtingaráætlun er lögð fram á Alþingi.

Section
Segment

Alþingi

Umfjöllun Alþingis er síðasta skrefið í rammaáætlunarferlinu. Alþingi fjallar um tillögu ráðherra og afgreiðir þingsályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Formlegu ferli rammaáætlunar er nú lokið.

Section
Segment

Framkvæmd rammaáætlunar

Samkvæmt ályktun Alþingis  um vernd og orkunýtingu hafa virkjunarkostir nú verið flokkaðir í þrjá flokka: orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Byggt á þeirri flokkun er hægt að halda áfram undirbúningi virkjanakosta á svæðum í orkunýtingarflokki og huga að frekari rannsóknum fyrir orkukosti í biðflokki. Jafnframt eiga stjórnvöld að hefja undirbúning að friðlýsingu fyrir landsvæði sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu samkvæmt verndarflokki áætlunarinnar. 

Orkunýtingarflokkur

Í orkunýtingarflokk falla virkjunarkostir sem er áætlað að ráðast megi í.
Stjórnvöldum er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í orkunýtingarflokki.

Áður en sótt er um orkuvinnsluleyfi þarf að hafa farið fram mat á umhverfisáhrifum fyrir viðkomandi virkjunarkost. Við mat á umhverfisáhrifum eru möguleg áhrif framkvæmdarinnar rannsökuð  ítarlega, mótvægisaðgerðir skilgreindar og viðhaft samráð við leyfisveitendur, fagstofnanir, hagsmunaaðila og almenning. Leyfisveitendur taka að því loknu ákvörðun um hvort heimila skuli virkjun eða ekki.

Biðflokkur 

Í biðflokk falla virkjunarkostir sem talið er að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi með rökstuddum hætti hvort kostirnir falli í orkunýtingarflokk eða verndarflokk. Stjórnvöldum er ekki heimilt að veita leyfi tengd orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í biðflokki. Þó er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum að því gefnu að framkvæmdir vegna þeirra séu ekki matsskyldar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum

Verndarflokkur

Í verndarflokk falla annars vegar virkjunarkostir sem ekki er talið rétt að ráðast í og hins vegar landsvæði sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Stjórnvöldum er hvorki heimilt að veita leyfi tengdum orkurannsóknum né orkuvinnslu vegna virkjunarkosta sem eru í verndarflokki eða eru á svæðum sem ástæða er talin til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu.

Þegar Alþingi hefur samþykkt verndar- og orkunýtingaráætlun hefja stjórnvöld undirbúning að friðlýsingu landsvæða sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Hafi landsvæði sem virkjunarkosturinn fer inn á ekki verið friðlýst gagnvart orkuvinnslu er hægt að senda Orkustofnun beiðni um að viðkomandi kostur verði tekinn aftur til mats í næsta áfanga rammaáætlunar.

Section
Segment

Endurskoðun og þróun virkjunarkosta

Gert er ráð fyrir að rammaáætlunarferlið taki allt að fjögur ár og að þeim liðnum hefst nýr áfangi í rammaáætlun. Við upphaf hvers áfanga er hægt að senda inn beiðnir til Orkustofnunar fyrir nýjum kostum og endurskoðun á virkjunarkostum sem nú þegar hafa farið í gegnum rammaáætlunarferlið.