Section
Segment

Fyrsta skrefið er 45 MW áfangi með möguleika á stækkun í 90 MW í öðrum áfanga. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 200 MW orkuvinnslu í fullbyggðri virkjun. Á árinu fóru fram umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykjum. Framkvæmdir taka mið af sérstöðu svæðisins og er mikið lagt upp úr því að vinna í sátt við umhverfi og samfélag.

Við allan undirbúning á framkvæmd Þeistareykjavirkjunar hefur verið lögð sérstök áhersla á umhverfismál. Meginmarkmiðið er að hanna arðbæra og áreiðanlega virkjun sem tekur mið af umhverfi sínu og náttúru. Framkvæmdir á svæðinu eru nú þegar hafnar og gangi áætlanir eftir hefjast byggingaframkvæmdir í maí 2015.

Section

Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem er nú í eigu Þingeyjarsveitar. Landsvæðið liggur suðaustur af Húsavík; frá Höfuðreiðarmúla í norðri og suður undir Kvíhólafjöll og frá Lambafjöllum í vestri að Ketilfjalli og Bæjarfjalli í austri. Svæðið er talið bjóða upp á mikla möguleika til jarðvarmanýtingar.

Section
Segment

Hátt í þrjú þúsund kílóum af fræjum hefur verið sáð í beitarlönd og vegfláa á Þeistareykjasvæðinu.

Í sátt við umhverfið 

Sumarið 2014 var unnið að lokafrágangi virkjunarvegar fyrstu 15 kílómetrana upp frá Húsavík að Þeistareykjum. Gengið var frá vegköntum og efnisnámum sem nýttar voru til verksins. Endanlegur frágangur á vegi með lagningu bundins slitlags alla leið að stöðvarhússlóð fer fram á komandi sumri. Ítarlegri upplýsingar um frágang á Þeistareykjavegi er að finna í kaflanum sjónræn áhrif.

Í samstarfi við Þingeyjarsveit, Norðurþing og aðra landeigendur hefur verið gerð áætlun um uppgræðslu lands sem mótvægi við það land sem fer undir mannvirki. Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með uppgræðsluverkefnunum. Á árinu 2014 var sáð í alls um 120 ha lands þar af um 40 ha í landi Þingeyjarsveitar til að endurheimta beitarland. Einnig var yfir 37 þúsund plöntum plantað í lúpínubreiður norðan Höskuldsvatns. 

Landsvirkjun hefur í samstarfi við heimamenn plantað 37.118 plöntum, bæði birki og lerki, í lúpínusvæði við Höskuldsvatn.

Allt frá upphafi að undirbúningi Þeistareykjavirkjunar hefur verið lögð áhersla á að draga úr sjónrænum áhrifum mannvirkja. Til að mynda var gríðarmikið magn af efni sem kom upp úr grunni stöðvarhússins notað til að byggja jarðvegsmön. Mönin er staðsett fyrir framan fyrirhugað stöðvarhús og er ætlað að draga úr sjónrænum áhrifum mannvirkja. Einnig var efni úr stöðvarhúsreit mulið niður og nýtt til vegagerðar.

Mikil áhersla er lögð á að landmótun og frágangur á Þeistareykjum fari fram samhliða uppbyggingu. Til að mynda var gróðurþekja af framkvæmdasvæðinu nýtt til uppgræðslu með fram vegum og til klæðningar á jarðvegsmön sunnan stöðvarhússreits. Þar sem ekki var hægt að nýta gróðurþekju var sáð í svæði sem þurfti að loka. Árangurinn af verkinu var góður og verður sambærilegri vinnu haldið áfram á framkvæmdatímanum.

  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x5008.jpg
    Hér má sjá Þeistareykjaveg frágenginn eftir landmótun og sáningu í vegfláa.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x5009.jpg
    Til að græða upp land var yfir 37 þúsund plöntum plantað í lúpínubreiður norðan Höskuldsvatns.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50012.jpg
    Sunnan við stöðvarhússreit var reist jarðvegsmön sem dregur úr sjónrænum áhrifum mannvirkja á svæðinu.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50010.jpg
    Við byggingu stöðvarhúsreits þurfti að grafa upp gróðurþekjur af stóru svæði.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50011.jpg
    Gróðurþekjurnar voru nýttar til uppgræðslu með fram vegum og til klæðninga á jarðvegsmön sunnan stöðvarhússreits.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50013.jpg
    Hér má sjá frágenginn vegkant með gróðurþekju af framkvæmdasvæðinu.
Section
Segment

Umhverfisvöktun á Þeistareykjum

Stundaðar hafa verið reglubundnar rannsóknir og vöktun á orkuvinnslusvæðinu á Þeistareykjum síðan árið 2002. Með því að rannsaka svæðið við undirbúning virkjunar, á framkvæmdartíma og eftir að rekstur er hafinn, verður hægt að meta hvort og þá hvernig rekstur jarðvarmavirkjunar hefur áhrif á jarðhitaauðlindina og umhverfið.

Reglubundin vöktun er skilgreind eftir niðurstöðum um mat á umhverfisáhrifum og í samráði við leyfisveitendur ásamt því að byggja á reynslu Landsvirkjunar af umhverfisvöktun.

Segment

Þeistareykir

Yfirlit yfir vöktun

Markmið vöktunar er að þekkja vel grunnástand svæðisins áður en rekstur virkjunar hefst.

Jarðskjálftamælar
Borholur
Lindir
Gróðurreitir
Hljóð
Loftgæði
GPS og þyngdarmælistöð
Skyggða svæðið á kortinu sýnir iðnaðarsvæðið á Þeistareykjum
Segment

Víðtækar umhverfisrannsóknir hafa farið fram á Þeistareykjum, bæði á jarðhitaauðlindinni sjálfri sem og öðrum umhverfisþáttum. Markmiðið er að þekkja vel grunnástand umhverfisins áður en rekstur virkjunar hefst svo hægt sé að meta hvort og þá hvernig nýting jarðvarmans hefur þar áhrif á.

Jarðhitaforðinn

Fjölmargar rannsóknir hafa farið fram til að kanna eðli jarðhitakerfisins og meta möguleika á vinnslu jarðhita á Þeistareykjum. Gert hefur verið jarðhitalíkan út frá öllum tiltækum gögnum og er það í stöðugri endurskoðun eftir því sem nýjar upplýsingar koma fram. Í lok árs 2014 hófst álagsprófun til að líkja eftir fyrirhugaðri orkuvinnslu úr svæðinu. Niðurstöður verða síðan færð inn í reiknilíkan, sem er hluti af jarðhitalíkaninu, og er notað til að meta afkastagetu auðlindarinnar áður en vinnsla hefst.

Jarðskjálfamælingar

Vegna fyrirhugaðrar virkjunar á Þeistareykjum hefur verið sett upp smáskjálftamælinet á svæðinu. Markmiðið er að afla upplýsinga um svæðið áður en vinnsla hefst svo hægt sé að meta möguleg áhrif vinnslunnar á umhverfið. Með mælingunum má meta hvort vinnsla hafi áhrif á skjálftavirkni ásamt því að gögnin nýtast til áframhaldandi rannsókna á jarðhitakerfinu.

GPS-mælingar

Með GPS- og InSAR-mælingum sem gerðar eru á svæðinu er hægt að fylgjast með breytingum á landi, bæði láréttum og lóðréttum. Enn fremur nýtast mælingarnar til að meta áhrif vinnslu frá svæðinu.

Yfirborðshiti

Orkustofnun hefur fylgst með jarðhita á yfirborði á Þeistareykjum síðan árið 1982 og á þeim tíma hafa sést verulegar náttúrulegar breytingar á yfirborðshita. Landsvirkjun vaktar nú yfirborðshita með árlegum mynda- og sýnatökum. Með ítarlegum upplýsingum um þróun yfirborðshitans er betur hægt að meta hvort og þá hvernig jarðhitanýting á svæðinu hefur áhrif þar á.

Gróður og fuglalíf

Landsvirkjun hóf gróður- og fuglavöktun á Þeistareykjum sumarið 2012. Gert er ráð fyrir árlegri vöktun á framvindu gróðurs, varpþéttleika mófugla og ábúð og varpafkomu fálka.

Grunnvatn

Um leið og skipulegar rannsóknir á háhitasvæðinu á Þeistareykjum hófust var farið að huga að ástandi grunnvatns á svæðinu. Því er til staðar góð þekking á grunnástandi vatnskerfanna á fyrirhuguðum áhrifasvæðum virkjunarinnar. Með því að þekkja vel ástand grunnvatns á svæðinu verður síðar hægt að greina hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hafi þar áhrif á. 

Hljóðvist

Landsvirkjun hefur hafið mælingar á hljóðvist á Þeistareykjum. Settur hefur verið upp fastur hljóðmælir við skálann á svæðinu og ákvarðaðir staðir þar sem áformað er að mæla hljóðstig sex sinnum á ári. Staðirnir eru við stöðvarhússreit, gönguleiðir og áningastaði. Tilgangur mælinganna er að þekkja áhrif starfseminnar á hljóðvist í nærliggjandi umhverfi.

Loftgæði

Við blástur borhola og á rekstrartíma jarðvarmavirkjana losnar út gufa sem inniheldur að mestu vatn en einnig aðrar lofttegundir (CO2, CH4 og H2S). Til að fylgjast með áhrifum loftgæða á Þeistareykjum var settur upp mælir í Kelduhverfi árið 2011 og nú í sumar á sjálfu Þeistareykjasvæðinu. Einnig verður mánaðarlega fylgst með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti umhverfis Þeistareykjavirkjun og inni í stöðvarhúsum. Árlega verða tekin sýni úr gufuaugum, borholum og í framleiðslurás til að fylgjast með efnasamsetningu gass og hlutfalli gufu. Til viðmiðunar verða mældar helstu gastegundir í náttúrulegu útstreymi frá jarðhitasvæðinu.

Section
Segment

Frekari upplýsingar

Á heimasíðu Landsvirkjunar má sjá frekari upplýsingar um uppbyggingu á Þeistareykjum, yfirlit yfir rannsóknir, nýjustu rannsóknarskýrslur, o.fl. Í ársskýrslu Landsvirkjunar má sjá ítarlega umfjöllun um framkvæmdir á árinu 2014.