Section
Segment

Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja hafa áhrif á náttúru og lífríki. Landsvirkjun starfrækir 16 aflstöðvar á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Á vegum fyrirtækisins er stunduð umfangsmikil vöktun og gerðar ítarlegar rannsóknir á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að meta hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif á umhverfi sitt og leita leiða til að draga úr þeim áhrifum.

Umfangsmest er lífríkisvöktun á vatna- og fuglalífi ásamt vöktun á hreindýrum. Rannsóknir eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.

Section
Segment

Vöktun vatnalífríkis

Landsvirkjun vaktar vatnalífríki í ám og vötnum á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að vakta mögulegar breytingar á vatnalífríki, þar með talin áhrif á fiskistofna. Með ítarlegri vöktun má leggja grunn að mótvægisaðgerðum til að draga úr umhverfisáhrifum.

Á vef sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi eru upplýsingar um fjölmargar rannsóknir á vatnalífríki á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar. Á vefnum má meðal annars finna upplýsingar um mengunarefni í dýralífi sjávar, vatnalíf í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti, botndýralíf sjávar í Héraðsflóa og fjölda annarra upplýsinga um fjölbreytta vöktun Landsvirkjunar og Alcoa á Austurlandi.

Section
Segment

Rannsóknir á vatnalífríki Þjórsár

Til að lágmarka umhverfisáhrif virkjana er mikilvægt að hafa ítarlegar umhverfisupplýsingar þannig að hægt sé að bera saman mismunandi tilhögun mannvirkja og mótvægisaðgerðir. Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi virkjana í neðri hluta Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar. Um þrjá virkjanakosti er að ræða, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Allir virkjanakostir eru í biðflokki rammaáætlunar.

Lífríki Þjórsár hefur verið vaktað með rannsóknum á fiskistofnum í ánni allt frá 1973. Einnig hefur Landsvirkjun staðið fyrir seiðasleppingum og byggingu fiskistiga við fossinn Búða sem hefur tvöfaldað laxgengt svæði árinnar. 

Áður en farið verður í mögulegar virkjanaframkvæmdir þarf að afla vitneskju um gengd og stofnstærð laxa í ánni. Upplýsingar þar um eru nauðsynlegar til að meta til hvaða mótvægisaðgerða þarf að grípa svo hægt sé að lágmarka neikvæð áhrif framkvæmdanna. Til að lágmarka röskun á vatnalífi á svæðinu er við hönnun virkjana meðal annars gert ráð fyrir seiðafleytu, fiskistiga og fiskvænum túrbínum.

 • - -7.png
  Seiðafleyta er staðsett fyrir ofan inntak virkjunar og hindrar að seiði fari um vélar aflstöðvar og hljóti skaða af.
 • - -5.png
  Efsta metra aðstreymandi vatns er beint um seiðafleytuna, fram hjá inntaki virkjunarinnar um sérstaka rennu og niður í náttúrulegan farveg árinnar.
Segment

Rannsóknir á vatnalífríki

Undirbúningur nýrra virkjana er áratugaferli sem felur í sér ítarlegar rannsóknir á mögulegum áhrifum þeirra á umhverfið. Gerð straumfræðilegra líkana er einn liður í því ferli.

Section
Segment

Talning laxfiska

Í laxveiðiám sem nýttar eru til stangaveiði hefur Veiðimálastofnun sýnt fram á tengsl milli veiðitalna og stofnstærðar. Þannig geta veiðitölur einar og sér gefið góða vísbendingu um fjölda laxa sem ganga í viðkomandi á. Þjórsá er hins vegar að langmestu leyti nýtt til netaveiða en engin gögn eru til sem sýna tengsl netaveiði og stofnstærðar og er fjöldi laxa í Þjórsá óþekktur. 

Best er að meta stofnstærð fiska með fiskiteljara sem komið er fyrir skammt frá ósi þar sem fiskar á leið upp ána fara um. Hins vegar hefur reynst erfitt að koma fyrir hefðbundnum fiskiteljara í Þjórsá þar sem áin er bæði vatnsmikil og breið. Fiskiteljari er í fiskistiganum við fossinn Búða en hann nýtist takmarkað til að meta stofnstærð laxa í ánni, m.a. vegna fjarlægðar hans frá ósi.

Í Kálfá hafa 670 gönguseiði verið örmerkt í þeim tilgangi að meta stofnstærð laxa í Þjórsá.

Vegna sérstöðu Þjórsár er verið að reyna að meta stærð laxastofns árinnar samkvæmt hugmyndum Veiðimálastofnunar með örmerkingu laxaseiða í einni af þverám Þjórsár, Kálfá. Það er gert með því að örmerkja seiði sem ganga til sjávar og að ári liðnu er borið saman endurheimt hlutfall merktra og ómerktra fiska úr afla og úr fiskiteljara sem settur var upp í Kálfá.

Merkingar hófust í Kálfá árið 2012 en þá voru 670 gönguseiði örmerkt með því að skjóta litlu stálmerki í trjónu seiðisins og þau einnig veiðiuggaklippt. Athuganir benda til að merkin hafi ekki áhrif á seiðin og klipping veiðiugga virðist ekki hafa áhrif á lífslíkur þeirra.

Segment

Fyrirstaðan við fiskiteljarann í Kálfá nær bakka á milli og því fara engir fiskar þar fram hjá án þess að fara í gegnum teljarann. Í teljaranum eru fiskarnir greindir með myndatöku í merkta og ómerkta fiska. Með því að þekkja heildarfjölda fiska sem gengur í Kálfá, og fjölda merktra fiska af þeim, ásamt upplýsingum um heildarveiði í Þjórsá er hægt með hlutfallsreikningi að leggja mat á stærð laxastofnsins í ánni. 

Rannsóknir á gengd og stofnstærð laxa í Þjórsá standa enn yfir og fara fram undir stjórn Veiðimálastofnunar. Vonir standa til að innan fárra ára gefi þær nokkuð góða mynd af stærð laxastofnsins og eins verði tengsl netaveiða og stofnstærðar það vel þekkt að hægt verði að fylgjast með breytingum á stofnstærðum út frá netaveiðitölum.

 • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x5006.jpg
  Fiskiteljari var settur upp í Kálfá, einni af þverám Þjórsár. Merkingar á seiðum hófust þar árið 2012.
 • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x5007.jpg
  Fiskarnir sem fara í gegnum fiskiteljarann eru greindir með myndatöku í merkta og ómerkta fiska.
Section
Segment

Áhrif á búsvæði neðan stíflu

Landsvirkjun hefur stundað umfangsmiklar rannsóknir á mögulegum rennslisbreytingum vegna fyrirhugaðra virkjana í neðri hluta Þjórsár. Er það gert þar sem rennslisbreytingar í árfarvegum vegna reksturs vatnsaflsstöðva geta haft áhrif á bæði mannlíf og dýralíf.

Frá því að virkjanir voru reistar í efri hluta Þjórsár hafa orðið miklar breytingar á rennsli í neðri hluta árinnar. Dregið hefur úr aurburði og betri skilyrði skapast fyrir laxastofninn sem hafa stuðlað að vexti hans og aukið veiði í ánni.

Komi til virkjanaframkvæmda í neðanverðri Þjórsá mun rennsli í náttúrlegum farvegi árinnar sem liggur frá stíflu að frárennslisskurði virkjunarinnar minnka mikið. Ef ekkert er að gert gæti vatnsstreymið á þessum svæðum dregist saman í þrengri farveg og lífríki skerst. Hægt er að tryggja lágmarksrennsli um þessi svæði með því að setja fyrirstöður í árfarveginn sem halda vatnsfletinum nær óbreyttum. Þannig er hægt að viðhalda sem mestu af núverandi vatnalífi. 

Lífríki í straumvatni er fjölþætt og nær allt frá frumframleiðslu baktería og plantna til botndýra og fiska og einnig fugla sem lifa við vötnin. Þar sem fæðukeðjan er viðkvæm er nauðsynlegt að huga að öllu lífríki við hönnun virkjana. Landsvirkjun skoðar nú möguleikann á því að stýra rennsli um farvegi, og önnur mikilvæg búsvæða laxfiska, neðan stíflna þeirra virkjunarkosta sem fyrirtækið er með til skoðunar. Markmiðið er að reyna að halda sem mestu af núverandi lífrænni framleiðni á svæðunum og stuðla að öflugu vatnalífríki í breyttu umhverfi.

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá lista yfir skýrslur sem komu út á árinu eða fjalla um verkefni tengd rannsóknum á vatnalífríki á starfssvæðum Landsvirkjunar. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.