Section
Segment

Vöktun fuglastofna

Landsvirkjun vaktar fuglalíf. Vöktunin fer meðal annars fram með talningum og athugunum á ákveðnum fuglategundum, fuglapörum, ungum, eggjum og hreiðrum. Markmiðið er að kanna hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif á fjölda fugla og dreifingu þeirra. Rannsóknir og vöktun hafa verið unnar í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Austurlands og Náttúrustofu Norðausturlands.

Árlega koma út á vegum Landsvirkjun rannsóknaskýrslur um vöktun fugla. Skýrslurnar má nálgast hér að neðan. Einnig má fylgjast með niðurstöðum vöktunar heiðagæsa og varpfugla á Héraði á sjálfbærnivef Landsvirkjunar og Alcoa.

Section
Segment

Vöktun á áhrifasvæði Fljótsdalssöðvar

Í mati á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar (Fljótsdalsstöðvar) kom fram að vöktun á fuglastofnum á áhrifasvæði virkjunarinnar væri nauðsynleg. Ástæður voru meðal annars að um 500 þekkt hreiðurstæði heiðagæsa fóru undir Hálslón og að möguleg aukning á gruggi í Lagarfljóti gæti komið niður á andfuglum sem sækja þangað yfir sumartímann.

Á árunum 2005 til 2013 fór fram vöktun á grágæsum og skúmum en niðurstöður bentu til að áhrif virkjunar á þessa stofna væru takmörkuð. Að svo stöddu fer því aðeins fram vöktun á heiðagæsum.

Aðrar breytingar samfara byggingu Fljótsdalsstöðvar sem gátu haft áhrif á lífríki fugla voru annars vegar lækkun vatnsborðs Jökulsár í Dal og hins vegar hækkað vatnsborð í Lagarfljóti.

Section
Segment

Fjölgun heiðagæsa á Vesturöræfum

Helstu niðurstöður rannsókna og vöktunar síðustu ára eru að þrátt fyrir niðursveiflur á einstökum árum hefur heiðagæsum fjölgað á vatnasviðum Jökulsánna á Dal og í Fljótsdal. Rannsóknir benda til að tilkoma Hálslóns hafi ekki valdið fækkun heiðagæsa þrátt fyrir skerðingu beitarlands og að hreiðurstæði hafi horfið. 

Þannig má til dæmis rekja fækkun á hreiðrum á Vesturöræfum árið 2011 að stærstum hluta til hrets í síðari hluta maí og afráns. Slík afföll eru vel þekkt í gæsavörpum. Ári síðar hafði heiðagæsin náð sér aftur á strik og enn frekar árið 2013. Aftur varð vart við fækkun í stofnunin vorið 2014, m.a. vegna mikilla snjóþyngsla og benda rannsóknir til að varp hafi almennt liðið fyrir vorhretið og leitt til þess að fuglarnir fluttu sig milli svæða. 

Heiðagæsastofninn á Austurhálendi virðist fylgja almennri þróun í heiðagæstofnum á Íslandi, sem aftur fylgir þróun í heimsstofninum. 

Árlegri vöktun á heiðagæsum verður haldið áfram svo hægt sé að meta náttúrulegan framgang stofnsins á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar.

Section
Segment

Takmörkuð áhrif virkjunar á stofn grágæsa

Fljótsdalshérað er ríkt af grágæsum og talið að 15 til 20 þúsund gæsir haldi þar til yfir sumarið.

Helstu niðurstöður rannsókna og vöktunar á grágæsum eru að lítil breyting varð á fjölda grágæsa í varpi og á fellistöðvum á árunum 2005 til 2013. Síðustu tvö ár hefur þó grágæsavarp á Héraði dregist nokkuð saman. Samantekt á öllum rannsóknargögnum 2005 til 2013 leiðir til þeirrar niðurstöðu að vatnaflutningar vegna Fljótsdalsstöðvar hafi haft takmörkuð áhrif á stofn grágæsa á áhrifasvæði stöðvarinnar. Miðað við forsendur á mati á umhverfisáhrifum er því ekki talin ástæða til að stunda reglubundna vöktun á stofni grágæsa nema á 5 til 10 ára fresti.

Section

Á Íslandi er að finna tvær fálkategundir og er smyrillinn Falco columbarius minnstur þeirra og jafnframt algengastur. Smyrlar eru að mestu leyti farfuglar sem hafa vetursetu í Evrópu en þó má sjá stöku fugla að vetri víða um land. Smyrlar eru ein þeirra fuglategunda sem sést hafa á Hafinu við Búrfell.

Section
Segment

Áhrif vindmylla á fuglalíf

Landsvirkjun skoðar nú hagkvæmni þess að reisa vindlundi á Þjórsársvæðinu, nánar tiltekið á Hafinu milli Búrfells og Sultartanga. Rannsóknir á áhrifum vindmyllanna á svæðinu hafa að mestu snúið að fuglalífi og verið unnar í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands.

Helstu umhverfisáhrif vegna vindmylla eru breytingar á ásýnd svæðisins, hljóðvist og áhrif á lífríki, þá sér í lagi fuglalíf.

Rannsóknirnar snúa einkum að því að kortleggja farleiðir fugla um Hafið ásamt því að gera grein fyrir útbreiðslu varpfugla á svæðinu. Alls sáust 46 tegundir fugla á Hafinu milli 26. mars og 21. október 2014 en aðeins hluti þeirra var talin verpa á svæðinu. 

Í lok mars var settur upp radar til að hnitsetja flugleiðir fugla um svæðið og mæla flughæð þeirra. Athuganir fóru fram á helstu fartímum fugla að vori og hausti. Auk þess að sýna fram á með nákvæmum hætti hvar flugleiðir fugla liggja um svæðið eru upplýsingarnar notaðar til þess að reikna út árekstrarhættu fugla við fyrirhugaðar vindmyllur. Úrvinnsla radargagna stendur enn yfir. 

Rannsóknir á umhverfisáhrifum vindmylla hafa ekki verið stundaðar á Íslandi til þessa. Þess vegna hefur verið stuðst við erlend viðmið í verkefninu en í nágrannalöndum okkar eru gerðar kröfur um radarathuganir í tengslum við mat á áhrifum vindmylla á fuglalíf. Þetta er í fyrsta sinn sem radar er beitt á Íslandi í þessum tilgangi og ljóst að notkun radartækni við fuglaathuganir mun koma að góðum notum hér á landi í framtíðinni.

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá skýrslur um vöktun á fuglum sem gefnar voru út á árinu 2014. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.