Section
Segment

Vöktun hreindýra

Landsvirkjun telur hreindýr á yfir 8.350 km2 svæði í samvinnu við Háskóla Íslands og Náttúrustofu Austurlands.

Landsvirkjun fylgist með ástandi og dreifingu hreindýrastofnsins á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar. Tilgangurinn er að meta áhrif framkvæmda við Kárahnjúka og aukinnar umferðar á svæðinu á stofninn. Árleg vöktun hreindýra fer fram á um 8.350 km2 svæði á Snæfellsöræfum og hefur Verkfræðistofnun Háskóla Íslands (VHÍ) séð um talningar með myndatöku úr flugvél og Náttúrustofa Austurlands um talningar og vöktun á dreifingu og atferli hreindýra.

Árlega eru gefnar út skýrslur um vöktun hreindýra. Skýrslurnar má nálgast hér að neðan. Einnig má fylgjast með niðurstöðum talninga á sjálfbærnivef Landsvirkjunar og Alcoa.

Section
Segment

Rannsóknir á Snæfellshjörð

Vöktun hreindýra á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar hefur beinst að hreindýrum sem tilheyra svokallaðri Snæfellshjörð. Hjörðin er annars vegar samsett úr Fljótsdalshjörð og hins vegar Norðurheiðahjörð.

Útbreiðslusvæði hreindýra á Austurlandi er skipt í níu veiðisvæði. Norðurheiðahjörð gengur á veiðisvæði 1 og Fljótsdalshjörð gengur á svæði 2 þó hún hafi á síðari árum einnig gengið á svæði 6 og nyrsta hluta svæðis 7. Takmarkaður samgangur er á milli svæða 1 og 2 en líkur taldar á því að dýr hafi fært sig af svæði 2 yfir á 1. Rannsóknarsvæðið vegna áhrifa Fljótsdalsstöðvar er fyrst og fremst veiðisvæði 1 og 2 auk vestasta hluta svæðis 6 og nyrsta hluta svæðis 7.

Segment

Veiðisvæði hreindýra

Útbreiðslusvæði hreindýra á Austurlandi er skipt í níu veiðisvæði. Rannsóknarsvæðið fyrir Snæfellshjörð (Fljótsdalshjörð og Norðurheiðahjörð) var fyrst og fremst veiðisvæði 1 og 2 auk vestasta hluta svæðis 6 og nyrsta hluta svæðis 7.

Kortið byggir á gögnum frá Náttúrustofu Austurlands.

Segment

Á árinu 2014 gaf Náttúrustofa Austurlands út umfangsmikla skýslu um áhrif náttúru og manna á líf Snællshjarðarinnar síðustu áratugi. Niðurstöður vöktunar sýna að hjörðin stækkaði á framkvæmdatímanum og að líkamlegt ástand dýranna var gott vegna mildra vetra. Árið 2002 færðust aðalsumarhagar Snæfellshjarðar frá Vesturöræfum yfir á Fljótsdalsheiði. Fljótsdalsdýrum fjölgaði fram til 2009 en árin 2011 og 2013 voru dýrin hins vegar færri en þau höfðu verið í fimm áratugi, einkum vegna veiða og útflutnings af svæðinu. Síðustu áratugi hefur gróska aukist á Vesturöræfum, fé fækkað en heiðagæs fjölgað. Með tilkomu Hálslóns árið 2007 fóru beitilönd undir lón og mannvirki og við það breyttist dreifing dýranna. Líklegt er að breytt tíðarfar, uppsöfnuð langtímaáhrif framkvæmdanna og aukinn ferðamannastraumur hafi haft áhrif á ofangreindar breytingar á hagagöngu hreindýra á Snæfellsöræfum eftir árið 2000.

Niðurstöður vöktunar sýna að framkvæmdir við Kárahnjúka höfðu ekki neikvæð áhrif á vöxt og viðgang hreindýra á Snæfellsöræfum.

Virkjunarframkvæmdir á Snæfellsöræfum fóru fram á árunum 2002 til 2009. Niðurstöður vöktunar sýna að framkvæmdirnar höfðu ekki neikvæð áhrif á vöxt og viðgang hreindýra á þessum slóðum en hins vegar urðu miklar breytingar á hagagöngu dýranna. Ekki var augljós tenging á breyttri hagagöngu við virkjunarframkvæmdir en þó voru vísbendingar um að skarkali tengdur framkvæmdunum og aukin umferð manna hafi t.d. haft þau áhrif að hópur  tarfa sem gekk í Kringilsárrana hefur ekki sést þar síðan 2006. Að öllum líkindum er þó um að ræða flókið samspil breytinga í tíðarfari, veiða og annarra mannlegra athafna á svæðinu. Einnig spila aðrir þættir inn í sem minna er vitað um eins og mögulegar gróðurbreytingar, áhrif stofnstærðar, óútskýrðir þættir í atferli dýranna og fleira. Þá er ljóst að breytingar urðu einnig á hagagöngu hreindýra á öðrum svæðum á sama tímabili.

Vöktun hreindýra með GPS-mælitækjum hefur veitt mikilvæga innsýn inn í atferli og ferðahegðun dýranna. Alls voru settir GPS-hálskragar á 12 hreindýr og ferðir þeirra vaktaðar og skrásettar. Hér má sjá kúna Heiðu í fylgd með hátt í 300 dýrum á Staðareyri í Berufirði. 

Segment

Alls voru settir GPS-hálskragar á 12 kýr í Snæfellshjörðinni. GPS-tækin sendu daglega frá sér smáskilaboð um ferðir dýranna. 

Á tímabilinu fóru dýr í Norðurheiðahjörð að ganga norðan áður skilgreindra nyrstu marka hreindýraveiðisvæða á Austurlandi. Að mestum líkindum er það vegna fjölgunar í hjörðinni. Rannsóknir á hreindýrum með GPS-hálskraga leiddu í ljós að mannvirki, s.s. vegir, raflínur, lón og girðingar, virtust hafa lítinn fælingarmátt. Undantekning frá þessu voru fjallaskálar. Líklegt er að ferðahegðun hreindýra stjórnist fyrst og fremst af gróðurfari, enda er það frumforsenda þess að dýrin haldi lífi. Aðrir þættir, s.s. veðurfar, snjóalög og truflun af mannavöldum spila svo inn í, mismikið eftir árstíðum. Nánari rannsókna á hagagöngu hreindýra er þó þörf.

Section
Segment

Hegðun á burðartíma, beitilönd og fæðuval 

Náttúrustofa Austurlands annast árlega vöktun á burðarsvæðum hreindýra á Snæfellsöræfum, Brúardölum og syðri hluta Fljótsdalsheiðar. Fylgst er með hvort, og þá hvernig, virkjunarframkvæmdir hafa áhrif á burð hreindýra. Vöktun fer fram bæði úr lofti og á landi. Einnig er fylgst með beitilöndum og fæðuvali. Í tengslum við rannsóknir á ferðahegðun hreindýra hafa gróðurkort verið uppfærð af meginhluta þess svæðis sem Snæfellshjörðin nýtir að sumarlagi. Með ítarlegri gróðurkortum fæst skýrari mynd af fæðuvali hreindýra á svæðinu.

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan er að finna skýrslu um vöktun hreindýra sem gefin var út á árinu 2014. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.