Umhverfisskýrsla
Landsvirkjunar 2014

Spila myndskeið
Section
Segment

Orkuvinnsla í sátt við umhverfi og samfélag

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar sem vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum - vatni, jarðvarma og vindi. Starfsemi Landsvirkjunar veldur í eðli sínu raski á umhverfinu þar sem bygging mannvirkja og mannlegt inngrip í náttúruna getur haft áhrif á lífríki og samfélag. Þess vegna leggur Landsvirkjun mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti og hefur að leiðarljósi að stunda orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag.

Kröfur til umhverfismála eru sífellt að aukast og hefur Landsvirkjun markað sér þá stefnu að vera í fararbroddi á því sviði.

Hörður Arnarson, forstjóri

Ávarp forstjóra

Segment

Umhverfisstefna Landsvirkjunar

Með ítarlegum rannsóknum, vöktun og skýrri umhverfisstefnu vinnur Landsvirkjun markvisst að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar. Stefnan er byggð upp í fimm liðum.

  • jardbod-edit.jpg
    1. Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu.
  • Minni úrgangur
    2. Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim. Til þess að ná stöðugt betri árangri á þessu sviði eru þýðingarmiklir umhverfisþættir vaktaðir og markvisst.
  • Minni losun gróðurhúsalofttegunda
    3. Landsvirkjun tryggir að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og setur sér strangari kröfur eftir því sem við á.
  • Betri nýting auðlinda
    4.Landsvirkjun leggur áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins og aðrir sem vinna fyrir það hafi yfir að ráða hæfni og þekkingu til að framfylgja þessari stefnu fyrirtækisins.
  • Umgengni í sátt við lífríki og náttúru
    5. Landsvirkjun kynnir stefnu sína í umhverfismálum opinberlega og gerir grein fyrir árangri fyrirtækisins í umhverfismálum og stuðlar þannig að opinni og málefnanlegri umræðu.
Segment

Vöktun og stýring umhverfisþátta

Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja og vakta umhverfisáhrif af starfsemi sinni og leitast við að draga úr þeim. Mikilvægir umhverfisþættir eru vaktaðir og verklag við stýringu þeirra hefur verið skilgreint. Umhverfisþáttunum er skipt í þrjá flokka; auðlindir, losun og náttúra og ásýnd.

1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21
  • 1 Nýting vatnsforðans

    Landsvirkjun leitast við að hámarka nýtingu vatnsins sem notað er til raforkuvinnslu í aflstöðvum fyrirtækisins. Vatnið á að stærstum hluta upptök sín í jöklum landsins og er safnað í miðlunarlón þaðan sem vatninu er veitt til aflstöðva til raforkuvinnslu. Landsvirkjun stundar umfangsmiklar jöklarannsóknir þar sem m.a. er fylgst með langtímabreytingum og afrennsli þeirra jökla sem mikilvægir eru fyrir vatnsbúskap fyrirtækisins.
  • 2 Vatnsstýring

    Stjórnun raforkuvinnslu vatnsaflsvirkjana felst í að stýra innrennsli vatns úr inntakslónum inn í aflstöðvar og hámarka þannig vatnsnýtingu. Með rennslisstýringu er einnig hægt að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur í rennsli árfarvega og hraðar breytingar á vatnshæð lóna, þar sem slíkar sveiflur geta haft neikvæð áhrif á jarðveg, lífríki og samfélag. Landsvirkjun leitast því eftir að draga úr óvæntum vatnshæðabreytingum og hefur sett viðmið um vatnshæð í ákveðnum farvegum sem ekki er leyfilegt að víkja frá.
  • 3 Nýting grunnvatns, kalt vatn

    Í starfsemi Landsvirkjunar er grunnvatn nýtt bæði sem neysluvatn og til kælingar á búnaði við orkuvinnslu með jarðvarma. Grunnvatn er ein af mikilvægustu auðlindum landsins og því vaktar Landsvirkjun m.a. grunnvatnsupptöku með það að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar.
  • 4 Nýting jarðhitaforðans

    Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum kemur jarðhitavökvi upp úr borholum. Hann er blanda af vatnsgufu, jarðhitavatni og ýmsum gastegundum sem eru í vatnsgufunni. Eftir að jarðhitavökvi frá vinnsluholum hefur farið í gegnum gufuskiljur er gufan nýtt til raforkuvinnslu en frárennslinu er ýmist fargað á yfirborði eða dælt niður í jarðhitageyminn (djúpförgun). Upptaka jarðhitavökvans getur haft í för með sér ýmiss áhrif innan jarðhitasvæðisins m.a. á þrýsting í jarðhitageyminum, yfirborðsvirkni jarðhita og skjálftavirkni. Landsvirkjun vaktar og stjórnar upptöku jarðhitavökvans og hefur eftirlit með áhrifum vinnslu á jarðhitakerfið og einstakar borholur. Til þess að skapa heildarmynd af áhrifum orkunýtingarinna á jarðhitakerfið er haldið utan um mæligögnin í sérstöku jarðhitalíkan þar sem hægt er að fylgjast með stöðu kerfisins og einnig reikna dreifingu massa og orku um kerfið.
  • 5 Hættumerkt efni

    Hættumerkt efni eru efni eða efnablöndur sem geta valdið tjóni á umhverfi eða á heilsu manna og dýra. Hættumerkt efni eru efni sem falla undir reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og hættulegra vörutegunda. Í starfsemi Landsvirkjunar eru slík efni m.a. notuð til þrifa, á verkstæðum, til ýmissa rannsókna og framkvæmda. Landsvirkjun heldur skrá yfir notkun hættumerktra efna og leitast við að lágmarka notkun þeirra.
  • 6 Innkaup

    Með vali á umhverfismerktri vöru og þjónustu er hægt að draga umtalsvert úr umhverfisáhrifum af eigin starfsemi. Þess vegna hefur Landsvirkjun gerts aðili að Innkaupanetinu sem er félagskapur fyrirtækja í samstarfi við Umhverfisstofnun sem vill minnka umhverfisáhrif af innkaupum með því að velja umhverfismerktar vörur og þjónustu.
  • 7 Eldsneyti

    Jarðefnaeldsneyti er óendurnýjaleg auðlind sem m.a. veldur losun gróðurhúsaloftegunda (GHL) og annarra heilsuspillandi efna. Landsvirkjun leggur áherslu á að lágmarka losun GHL með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins. Þá leitast Landsvirkjun við að tryggja að öll meðhöldun eldsneytis, þar með talinn flutningur, geymsla og áfylling, valdi ekki tjóni á lífríki og náttúru. Landsvirkjun heldur utan um alla eldsneytisnotkun fyrirtækisins og upplýsir um losun GHL af völdum hennar.
  • 8 Rafmagn- og heitavatnsnotkun

    Rafmagns- og heitavatnsnotkun á Íslandi er öll unnin frá endurnýjanlegum orkuaðlindum, þ.e. vatnsafli og jarðvarma. Stærsti hluti rafmagnsnotkunnar Landsvirkjunar er eigin framleiðsla í aflstöðvum en fyrirtækið kaupir einnig rafmagn og heitt vatn fyrir aðra starfsemi s.s. eins og skrifstofur og geymsluhúsnæði. Landsvirkjun leggur áherslu á að nýta allar auðlindir á skynsamlegan hátt og þess vegna er haldið utan um notkun á rafmagni og heitu vatni með það að markmiði að draga úr óþarfa sóun/eyðslu? auðlindanna.
  • 9 Gas frá jarðgufuvirkjunum

    Við nýtingu jarðhita kemur jarðhitavökvi upp úr borholum sem er blanda af jarðhitavatni, vatnsgufu og jarðgasi. Gasið er aðallega koltvísýringur, brennisteinsvetni og vetni og er styrkur þess í jarðhitavökva háður hegðun viðkomandi jarðhitakerfis.. Koltvísýringur veldur gróðurhúsaáhrifum og brennisteinsvetni getur valdið tæringu á búnaði og skaðað heilsu manna. Landsvirkjun heldur utan um magn og samsetningu gaslosunar frá jarðvarmavirkjunum og upplýsir bæði um losun gróðurhúsalofttegunda og styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti af hennar völdum.
  • 10 Losun frá lónum

    Við myndun uppistöðulóna fer gróður og jarðvegur undir vatn og við niðurbrot (rotnun) lífrænna efna í gróðri og jarðvegi myndast gróðuhúsalofttegundirnar (GHL) koltvísýringur (CO2), metan (CH4) og glaðloft (N2O). Losun GHL frá lónum er mjög breytileg milli lóna/svæða. Sá þáttur sem vegur hvað þyngst er heildarmagn þess gróðurs og lífræns efnis sem fer undir vatn í hverju tilviki og hefur Landsvirkjun látið rannsaka losun GHL frá lónum fyrirtækisins og upplýsir um þá losun.
  • 11 Losun SF6 frá rafbúnaði

    Brennisteinshexaflúoríð (SF6) er notað sem einangrunarmiðill á rafbúnað. Lofttegundin er öflugasta gróðurhúsalofttegundin sem þekkt er. Hreint SF6 er ekki eitrað en niðurbrotsefni þess geta haft neikvæð áhrif á heilsu fólks. Landsvirkjun vaktar mögulega leka á SF6 frá rafbúnaði, skráir og upplýsir um losun.
  • 12 Þétti- og skiljuvatn

    Frárennslisvatn (þétti- og skiljuvatn) frá jarðvarmavirkjunum inniheldur þungmálma og næringarefni sem að stærstum hluta eiga uppruna sinn í jarðhitavökvanum sem kemur upp úr borholunum. Náttúrulegur styrkur þessara efna er breytilegur milli staða og er m.a. háður eldvirkni og efnainnihaldi grunnvatns. Sé styrkur efnanna of mikill getur yfirborðslosun haft áhrif á lífríki. Til þess að draga úr umhverfisáhrifum vegna förgunar affallsvatns er hægt að dæla vatninu aftur niður í jarðhitageyminn en einnig getur reynst nauðsynlegt að losa hluta þess á yfirborði. Landsvirkjun fylgist með magni losunar og mögulegum áhrif hennar á vatn og lífríki.
  • 13 Frárennsli

    Til frárennslis telst allt fráveituvatn sem inniheldur svifagnir. Þar með er talið frárennsli frá borplönum, gangnagerð, bílaplönum, verkstæðum og geymslum ásamt skólpi frá aflstöðvum og vinnubúðum. Settankar, olíuskiljur og rotþrær hafa það hlutverk að draga úr umhverfisáhrifum frárennslis með því að skilja mengandi hluta rennslisins frá. Fylgst er með virkni þessa búnaðar og séð til þess að tankar og þrær séu tæmd reglulega af viðurkenndum förgunaraðilum.
  • 14 Úrgangur

    Við urðun á úrgangi brotnar lífrænn hluti hans niður og myndar metangas sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Markmið Landsvirkjunar er að auka endurvinnslu og endurnýtingu og draga þannig úr magni úrgangs sem fer til urðunar. Leitast er við að skapa aðstöðu til flokkunar og geymslu á úrgangi á öllum starfsstöðvum og magn úrgangs skráð.
  • 15 Spilliefni

    Afgangur og umbúðir hættumerktra efna sem á að farga flokkast sem spilliefni og um meðferð þeirra gilda sérstakar kröfur samkvæmt lögum og reglugerðum. Spilliefni geta verið eldfim, ertandi, ætandi og hættuleg heilsu og umhverfi. Öllum spilliefnum á starfsstöðvum Landsvirkjunar er safnað í sérstök ílát, magn þeirra skráð og skilað til viðurkenndra móttökuaðila.
  • 16 Hávaði

    Hávaði vegna starfsemi Landsvirkjunar stafar helst frá blæstri í borholum ásamt vélum og búnaði jarðvarmavirkjana og svo frá vindmyllum. Hávaði getur haft áhrif á upplifun í náttúru og stöðugt áreiti vegna hávaða getur einnig haft heilsuspillandi áhrif. Landvirkjun vaktar hljóðvist og til að draga úr hávaða eru hljóðdeyfar á öllum borholum fyrirtækisins.
  • 17 Landgræðsla og skógrækt

    Landsvirkjun hefur staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt á áhrifasvæðum virkjana fyrirtækisins. Tilgangur landgræðslunnar er að endurheimta landgæði, draga úr raski á gróðurlendum auk þess að stöðva gróðureyðingu, jarðvegsrof og endurheimta jarðveg. Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar hefur einnig verið horft til landgræðslu og skógræktar með kolefnisbindingu í huga og hefur Landsvirkjun unnið að sérstökum verkefnum þar um.
  • 18 Áhrif á lífríki

    Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask þar sem virkjanaframkvæmdir, vatnaflutningar og tilkoma nýrra mannvirkja geta haft áhrif á náttúru og lífríki. Umfangsmikil vöktun og ítarlegar rannsóknir eru stundaðar á áhrifasvæðum allra aflstöðva fyrirtækisins. Markmiðið er að meta hvort og þá hvernig starfsemin hefur áhrif á umhverfi sitt og leita leiða til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Stærstu vöktunarþættir Landsvirkjunar snúa að hreindýrum, vatna- og fuglalífi. Rannsóknir eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.
  • 19 Rof og setmyndun

    Breytingar á vatnsrennsli í ám og vatnshæð í lónum, auk álags frá vindi, vatni og öldum geta leitt til rofs úr farvegum áa og úr bökkum lóna. Þá getur framburður jökuláa leitt til setmyndunar í lónum. Landsvirkjun leitast við að tryggja sem jafnast rennsli í árfarvegum til að lágmarka rof. Reglubundin vöktun fer fram á rofi og setmyndun og gripið er til aðgerða ef með þarf.
  • 20 Jarðrask

    Jarðrask vegna framkvæmda og reksturs við starfsstöðvar Landsvirkjunar getur haft áhrif á lífríki og náttúru. Jarðrask getur m.a. orsakast af efnistöku, aðstöðusköpun, gerð og staðsetningu lóna, stíflna og veituleiða. Landsvirkjun leggur áherslu á að halda jarðraski í lágmarki á öllum stigum framkvæmda og að þeim loknum séu svæðin færð til fyrra horfs eins og unnt er.
  • 21 Sjónræn áhrif og landmótun

    Öllum framkvæmdum Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask á umhverfi og við stærri framkvæmdir geta sjónræn áhrif orðið umtalsverð. Áhrifin eru mismunandi og ráðast af landslagseinkennum og nýtingu landsvæða og geta haft áhrif á upplifun fólks. Við hönnun mannvirkja leggur Landsvirkjun áherslu á að skapa heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrlegs landslags.
Segment

Varfærin uppbygging nýtingar

Við allan undirbúning á framkvæmd Þeistareykjavirkjunar hefur verið lögð sérstök áhersla á umhverfismál. Fyrsta skrefið er 45 MW áfangi með möguleika á stækkun í 90 MW í öðrum áfanga. Áætlanir gera ráð fyrir allt að 200 MW orkuvinnslu í fullbyggðri virkjun. Á árinu fóru fram undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykjum og var mikil áhersla lögð á að landmótun og frágangur færu fram samhliða uppbyggingu.

Þeistareykir

MW 45 Fyrsti áfangi
Segment

Þeistareykir

JARÐVARMAVIRKJUN

Reglubundnar rannsóknir og vöktun hafa verið stundaðar á orkuvinnslusvæðinu á Þeistareykjum síðan árið 2002. Með því aðrannsaka svæðið við undirbúning virkjunar, á framkvæmdartíma og eftir að rekstur er hafinn, verður hægt að meta hvort og þá hvernig rekstur jarðvarmavirkjunar hefur áhrif á jarðhitaauðlindina og umhverfið.

Section
Segment

Sjálfbær nýting auðlinda

Jarðhiti, fallvötn og vindur eru auðlindir sem Landsvirkjun nýtir til orkuvinnslu. Fyrirtækið fylgist með vatnafari og jarðhitakerfum á áhrifasvæðum fyrirtækisins. Markmiðið er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og fylgjast með langtímabreytingum sem gætu haft áhrif á auðlindir og umhverfi.

Segment

12.807 GWst

Landsvirkjun vann 12.807 GWst af raforku á árinu. Afhent magn var 13.085 GWst en það er lækkun um 22 GWst frá árinu 2013, sem var metár Landsvirkjunar í raforkusölu.


Heildarorkuvinnsla

2014

GWst12.8070,2%
  • Vatnsafl: 12.316,6G GWst
  • Jarðvarmi: 483,7 GWst
  • Vindafl:6,7 GWst
Segment

Samgöngustefna

Landsvirkjun hefur sett sér samgöngustefnu þar sem megináherslan er að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í starfsemi fyrirtækisins. Einnig er lögð áhersla á kolefnisbindingu í gróðri og virka þátttöku í orkuskiptaáætlun fyrir Ísland.

Section
Segment

Kolefnishlutlaus starfsemi

Markmið Landsvirkjunar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og verða kolefnishlutlaust fyrirtæki. Þá reynir Landsvirkjun eftir fremsta megni að draga úr losun hávaða og mengandi efna út í umhverfið.

Segment
Segment

Jákvæð þróun

Stærstu uppsprettur GHL frá starfsemi Landsvirkjunar eru útstreymi frá jarðvarmavirkjunum og losun frá lónum vatnsaflsvirkjana. Aðra losun má rekja til brennslu jarðefnaeldsneytis og förgunar úrgangs. Heildarlosun GHL frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2014 var tæplega 53 þúsund tonn CO2-ígilda og jókst losunin um 7% miðað við árið 2013. Losunin var hins vegar 5% lægri en meðaltalsgildi síðustu fimm ára og því er um jákvæða þróun að ræða.

Section
Segment

Áhrif á náttúru og ásýnd

Við stærri framkvæmdir geta sjónræn áhrif orðið umtalsverð. Því leggur Landsvirkjun áherslu á að hönnun framkvæmda skapi heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrulegs landslags

Vindlundur ofan Búrfells

VINDMYLLUR 80 MW 200
Segment

Fyrirhugaður vindlundur

TÖLVUTEIKNING

Sjónræn áhrif eru einn af veigamestu umhverfisþáttunum þegar kemur að skipulagningu vindlunda. Við undirbúning þeirra eru gerðar greiningar á landslagi, skoðað hvaðan mannvirkin sjást og útbúnar sýnileikamyndir sem líkja eftir umhverfi að framkvæmdum loknum.

Segment

Vöktun umhverfisáhrifa

Við fyrstu athugun á virkjanahugmyndum skiptir miklu máli að hafa góðar upplýsingar um náttúrufar og samfélag. Eftir að undirbúningur framkvæmda hefst, og síðar rekstur aflstöðva, stundar fyrirtækið ítarlega vöktun og rannsóknir sem gefa sýn á hvort og þá hvernig starfsemi Landsvirkjunar hefur áhrif á umhverfið.

Niðurstöður vöktunar sýna að framkvæmdir við Kárahnjúka höfðu ekki neikvæð áhrif á vöxt og viðgang hreindýra á Snæfellsöræfum.

Á árinu var unnið að áframhaldandi rannsóknum á fuglalífi, vatnalífríki og hreindýrum á áhrifasvæðum aflstöðva fyrirtækisins. Vöktun fór einnig fram á rof- og setmyndun á vatnasviðum og unnið var að endurheimt landgæða með landgræðslu.

Section
Segment

Opinská framsetning gagna

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar er eingöngu gefin út á rafrænu formi. Með rafrænni útgáfu er um leið aukið aðgengi að öllum útgefnum skýrslum tengdum umhverfismálum Landsvirkjunar. Lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna sem stuðlar að opinni og málefnanlegri umræðu um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum.