Section
Segment

Rof í farvegum áa og úr bökkum lóna getur orðið þegar breytingar verða á vatnsrennsli í ám og á vatnshæð lóna. Einnig getur álag frá vindi, öldum og vatni valdið rofi. Þá veldur framburður jökuláa setmyndun í árfarvegum og lónum. Landsvirkjun vaktar þá þætti sem geta haft áhrif á rof og setmyndun á orkuvinnslusvæðum fyrirtækisins. Markmiðið er að kortleggja breytingar á lónum og á vatnsfarvegum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef þörf krefur.

Segment

Strandrof og færsla óss

Hér á eftir er fjallað um tvö verkefni sem unnið var að á árinu er varða rof og setmyndun. Annars vegar rannsóknir og vöktun á rofi við strönd Blöndulóns á Norðurlandi vestra og hins vegar færslu á ósi Lagarfljóts og Jöklu á áhrifasvæði Fljótsdalsstöðvar.

Landsvirkjun hefur frá upphafi framkvæmda (2003) við Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsstöð) stundað rannsóknir og vöktun í þeim tilgangi að meta þörf á aðgerðum vegna áhrifa af virkjuninni. Niðurstöðurnar eru kynntar sveitarstjórnum, hagsmunaaðilum og einnig gerðar öllum aðgengilegar, meðal annars á vef sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi. Á vefnum má meðal annars finna upplýsingar um uppsöfnun aurs í Hálslóni, breytingar á strandlengju Héraðsflóa, áfok við Hálslón og fjölda annarra upplýsinga um fjölbreytta vöktun Landsvirkjunar á Austurlandi.

Section
Segment

Færsla óss Lagarfljóts og Jöklu í Héraðsflóa

Þekkt er að staðsetning ósa straumvatna á sandströndum getur verið mjög breytileg. Ós Markarfljóts er gott dæmi um það og er staðsetning óssins meðal annars háð veðurfari, strandstraumum og ísstíflum. Það sama má segja um sameiginlegan ós Lagarfljóts og Jöklu.

Frá því að rekstur Fljótsdalsstöðvar hófst árið 2007 og til ársins 2014 hafði hinn sameiginlegi ós Lagarfljóts og Jöklu færst um 1,3 km til norðurs. Ósinn var því kominn um 3,2 km norðar en hann hafði oftast verið á síðustu öld. Orsökin fyrir færslu óssins er ekki þekkt. Færslan til norðurs byrjaði áður en rekstur Fljótsdalsstöðvar hófst og því er ekki hægt að tengja breytinguna á einhlítan hátt við vatnaflutninga vegna virkjunarinnar.

Segment

Ós Jöklu og Lagarfljóts

Yfirlitsmynd

Ós Jöklu og Lagarfljóts hefur verið breytilegur síðustu áratugina. Á sandströndum líkt og í Héraðsflóa er ekki óþekkt að ósar geti verið breytilegir og staðsetning þeirra háð veðurfari, strandstraumum og ísstíflum. Á myndinni má sjá hversu norðarlega ós Jöklu og Lagarfljóts var kominn og hvar áætlað var að staðsetja nýjan.

Segment

Sumarið 2013 kom ábending frá landeigendum norðan Jöklu um að ef færslan á ósnum héldi áfram til norðurs væri hætta á að áin bryti sér leið yfir í Fögruhlíðará. Að höfðu samráði við hagsmunaaðila (veiðifélög á svæðinu, landeigendur, stofnanir og sveitarfélagið Fljótsdalshérað) ákvað Landsvirkjun að rétt væri að gera tilraun til að grafa út nýjan ós. Nýr ós yrði rúmum 3 km sunnan við núverandi ós, á þeim stað sem ósinn hefur jafnan verið frá 1945 til 2000.  

Í febrúar 2014 var grafinn 10 m breiður skurður í gegnum fjörukambinn. Gert var ráð fyrir að árvatnið græfi síðan nýja ósinn út samhliða því að brimið lokaði þáverandi ósi, enda var verið að stytta rennslisleið vatnsins til sjávar.

Við framkvæmdina var þeirri aðferðafræði beitt að láta náttúrulegt streymi árvatnsins grafa út nýjan ós. Með minna streymi um gamla ósinn var gert ráð fyrir að sjávarbrimið myndi loka honum á skömmum tíma.

  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50023.jpg
    Ljósmynd af strönd Héraðsflóa tekin þann 7. október 2013. Vinstra megin á myndinni má sjá hvar árnar renna til sjávar og grái flöturinn sýnir hvar áætlað var að staðsetja nýjan ós.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50022.jpg
    Nýr ós skömmu eftir að hann var opnaður þann 8. júní 2014. Grafinn var um 5 metra breiður skurður og gert ráð fyrir að náttúrulegt streymi ánna myndi grafa út stærri ós.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50021.jpg
    Vatnið gróf nýja ósinn hratt út. Sólarhring síðar, þann 9. júní, var farvegurinn til sjávar orðinn 100 m breiður.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50020.jpg
    Stefán Scheving Einarsson
    Nýr ós þann 15. júní 2014. Farvegurinn er orðinn 200 m breiður. Greinilega sést að Lagarfljót fer allt um nýja ósinn og syðstu kvíslar Jöklu.
Segment

Skömmu eftir að nýi ósinn var opnaður hafði brimið lokað honum á ný. Ákveðið var að gera nýja tilraun að hausti þar sem miðað var við að framkvæmdatíminn yrði ekki nálægt göngutíma laxfiska. Að vori óskuðu landeigendur og íbúar á svæðinu eftir því að Landsvirkjun skoðaði hvort hægt væri að opna ósinn í júní. Að fenginni jákvæðri umsögn Veiðimálastofnunar og leyfi frá Fiskistofu var ákveðið að opna nýjan ós á sama stað og í febrúar. Var það gert þann 8. júní 2014. 

Fljótlega gróf vatnið breiðari ós og viku síðar fór allt Lagarfljót og syðstu kvíslar Jöklu um nýja ósinn. Þannig voru síðan aðstæður fram á haust og í janúar 2015 hafði brimið lokað gamla ósnum.

Segment

Færsla óss Lagarfljóts og Jöklu

Gerðar voru tvær tilraunir til að færa ós Lagarfljóts og Jöklu. Skömmu eftir fyrstu tilraun hafði brimið lokað nýjum ósi. Önnur tilraun gekk betur, á einni viku hafði vatnið grafið út 200 metra ós og allt Lagarfljót og syðstu kvíslar Jöklu streymdu þar út.

Section
Segment

Strönd Blöndulóns

Rannsóknir við strönd Blöndulóns hófust 1993 eða tveimur árum eftir myndun þess. Fylgst hefur verið með grunnvatsstöðu, gróðurbreytingum við lónið, rofi úr bökkum og mótun strandar. Eftir stækkun Blöndulóns árið 1997 fór að bera á sandfoki og myndun áfoksgeira (sandfláka) á nokkrum stöðum við strendur lónsins. Áfokið á sér aðallega stað við lága lónstöðu að vori.

Árið 2009 voru sandflákar við Blöndulón orðnir tæplega 30 ha og ljóst var að sporna þurfti við áfoki með því að binda sandinn úr lóninu.

Í kjölfarið var farið að vakta myndun og útbreiðslu þessara áfoksgeira og þegar frá leið urðu rannsóknir á flákunum, ásamt aðgerðum til að binda sand úr lóninu, meginviðfangsefni á svæðinu.  Einnig hefur verið fylgst með framvindu gróðurs og tilraunir gerðar með áburðardreifingu til styrkingar hans. Áhrif á gróður urðu að mestu vegna hækkunar grunnvatnsborðs fyrstu árin eftir tilkomu lónsins og áður en það var hækkað í núverandi stöðu. 

Rof hefur mest numið 1,55 m á ári en að meðaltali er það um 0,35 m á ári fyrir tímabilið 2004 til 2014.

Öldurof er virkt þegar lónið er á yfirfalli og öldugangur myndast í stórviðrum að hausti. Það fer eftir vindátt í hvassviðrum hvar rofið er mest en það hefur einkum verið á nesjum og hallandi landi við norðan- og vestanvert lónið. Við öldurofið losnar fíngerður vikursandur úr jarðvegi og skolast inn á grynningar og víkur. Ef lónstaða er lág framan af sumri getur sandurinn borist á land þegar hvessir. Lágvaxinn gróður er þá viðkvæmur fyrir áfoki en kvistgróður og hávaxnari grastegundir þola áfokið betur. 

Vegna vaxandi álags á gróðurinn var ákveðið að halda áfram mælingum á strandrofi og áfoki og hefja tilraunir með áburðargjöf á helstu áfokssvæðin en sambærilegar tilraunir hafa víða gefið þokkalega raun.

  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50014.jpg
    Olga Kolbrún Vilmundardóttir
    Sandur sem fauk úr fjöru upp í mólendi við norðanvert Blöndulón árið 2008.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50015.jpg
    Borgþór Magnússon
    Árið 2003 var girt af sandsvæði við norðanvert lónið og sett þar upp áburðartilraun. Áborið land (t.v.) var borið saman við óáborið (t.h) og árangur metinn.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50016.jpg
    Sigmar Metúsalemsson
    Girðingin í Sandvík eftir 11 ára friðun árið 2012. Bætt hefur í sandinn, en loðvíðir hefur sprottið upp þar sem sandur er mestur og er tekinn að binda hann.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50017.jpg
    Borgþór Magnússon
    Frá árinu 2010 hefur áburði verið dreift á nokkur helstu sandfokssvæði við lónið til að styrkja gróður. Hér er verið að bera á sunnan við Áfangafell.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50018.jpg
    Borgþór Magnússon
    Frá sama svæði sunnan við Áfangafell árið 2013, sjá má áburðaráhrif á gróðri en land er bitið af sauðfé og gæs.
  • Umhverfisskyrsla_Myndir_1400x50019.jpg
    Borgþór Magnússon
    Vorið 2013 var sandsvæði í Lambavík við norðanvert lónið girt af og gerð þar tilraun með að sá melgresi í foksand. Fræ spíraði vel og melgresið myndaði rákir í sandinum að áliðnu sumri.
Segment

Árangur af áburðargjöf og sáningu grasfræs hefur verið þokkalegur en misjafn eftir árferði. Beit sauðfjár og gæsa hefur dregið nokkuð úr árangri. Árið 2012 bar á miklu sandfoki upp í víkur við norðanvert lónið. Vorið 2013 var ákveðið að girða af eina víkina, Lambavík, og var þar meðal annars sáð melfræi auk áburðargjafar. Þessar aðgerðir lofa góðu. Í kjölfar beitarfriðunar vex upp loðvíðir í sandflákum og bindur hann fokefni sem berst úr fjöruboði lónsins.

Rannsóknir og tilraunir með áburðadreifingu á árunum 2010 til 2014, ásamt upplýsingum um vöktun rofsins allt frá árinu 1997, eru nú notaðar sem viðmið fyrir áframhaldandi aðgerðir. Áherslur næstu ára verða að girða af fleiri víkur þar sem sandflákar hafa myndast ásamt því að auka áburðargjöf og sáningar.

Section
Segment

Útgefið efni

Að neðan má sjá skýrslur ársins 2014 um rannsóknir og vöktun er varðar rof og setmyndun. Með því að smella á heiti skýrslunnar má nálgast rafrænt eintak hennar en einnig eru margar skýrslur Landsvirkjunar aðgengilegar í Gegni. Þær skýrslur sem ekki eru aðgengilegar á rafrænu formi má nálgast á bókasafni Landsvirkjunar.